Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:52:59 (239)

2001-10-08 18:52:59# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:52]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið nákvæmlega spurninguna. En við í Frjálslynda flokknum lítum svo á að það sé betra að fara hratt á milli þessara kerfa, eins hratt og mögulegt er. Við höfum talið að fimm ára aðlögunartími nægði til þess að skipta um kerfi.

Við höfum líka sagt að eðlilegra væri að smábátaflotinn og jafnvel strandveiðiflotinn þyrftu ekki að fara inn í beina uppboðsleið heldur hefðu stýrða aðlögun. Í hugmyndum okkar höfum við sagt að sóknarstýring smábátaflotans væri betri en aðrar aðferðir til að stýra veiðum hans. Ég er reyndar á þeirri skoðun, byggi það m.a. á því sem ég hef heyrt af þróun stýrikerfisins í Færeyjum, að það væri mun heppilegra fyrir okkur að fara með allan strandveiðiflotann yfir í sóknarstýrt kerfi fremur en að reyna að þróa það áfram í einhvers konar sölu- eða leigukerfi aflaheimilda. Ég held að við munum ná betri árangri í umgengni um auðlindina en með núverandi kerfi eða kvótaleigu.