Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 19:30:33 (250)

2001-10-08 19:30:33# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[19:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra flutti hérna áðan fróðlegt og yfirgripsmikið erindi um fiskveiðistefnu Færeyinga, um ástand fiskstofna í Færeyjum, um færeyska sjávarútvegsráðherrann, um hitastig í hafi, um skarkola, um brottkast, um nýjar aðferðir til þess að veiða skötusel, um saltfiskmarkað í Katalóníu og svo ræddi hann lítillega um hv. þm. Einar Odd Kristjánsson.

Hæstv. sjútvrh. talaði hins vegar ekki í ræðu sinni um stjórnkerfi fiskveiða og alls ekkert um það frv. sem lá hér fyrir. Hins vegar féll hann í þá gryfju, sem hann er nú búinn að hanga ofan í síðan endurskoðunarnefndin lauk störfum, að veitast að hv. þm. Jóhanni Ársælssyni persónulega og ásaka hann um að hafa slitið einhvern frið.

Herra forseti. Ég held því fram að það sé hæstv. sjútvrh. sem hafi rofið þann frið sem var saminn í auðlindanefndinni með því að taka upp einungis hráan málstað LÍÚ og kasta burt þeim vísi að samkomulagi sem auðlindanefndin samþykkti, m.a. varðandi veiðigjaldsleiðina.