Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 14:06:09 (266)

2001-10-09 14:06:09# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að mótmæla því sem fram kom í upphafi síðasta andsvars hv. þm., að ríkisstjórnin hafi ekki virt dóm Hæstaréttar. Á Alþingi voru sett sérstök lög til þess að unnt væri að framfylgja þeim dómi, svo óljós sem hann var. Þingmaðurinn veit náttúrlega mætavel að það kostaði ríkissjóð stórfé, bæði sú lagasetning og eins lagasetningin í maí sem kom í kjölfar nefndarstarfs vegna þessa máls.

Ég vil svo bæta því við að þetta frv. sem við erum nú með til umræðu hefur það að markmiði að efla atvinnulífið á Íslandi til þess að það geti skapað meiri verðmæti sem við getum síðan fengið meiri skatttekjur af. Skyldi það ekki verða raunin á endanum, þegar öllu er á botninn hvolft, að vegna ráðstafana af þessu tagi munum við hafa meira til ráðstöfunar í okkar sameiginlega sjóð til að leggja í félagsleg verkefni og til þess að greiða þeim sem eru bótaþegar á Íslandi og eiga allt gott skilið meiri bætur en ella. Ég held að það sé akkúrat þannig. Það er undirstaða þess máls sem hér var hreyft við.