Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 14:58:10 (279)

2001-10-09 14:58:10# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það taki neinu tali að vera að þæfa þetta mál á hinu háa Alþingi. Á opinberum vettvangi í dag hefur því verið lýst yfir af formanni efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til meðferðar að engu verði breytt í þessum pakka. Þá vitum við það og þess vegna segi ég að ég veit eiginlega ekki til hvers maður er að eyða orðum að þessu. En þó hefur málinu kannski verið skákað til aðeins af hæstv. fjmrh. sem sagði að reyndar væri ekkert að marka þennan formann, hv. þm. Vilhjálm Egilsson. Það sagði hann fullum fetum, að það væri ekki að marka þetta sem formaðurinn segði og þess vegna tekur málið vonandi þá stefnu að menn fái að leggja orð í belg.

Hitt er svo annað mál að enginn getur ætlast til þess í svo flóknu máli sem þetta er og sem hefur tekið hæstv. ríkisstjórn marga mánuði að vinna, að maður taki afstöðu beinlínis til einstakra þátta í tillögunum. Margar eru mjög álitlegar, aðrar síðri. Þar sem ég á kannski von á að verða spurður eftir afstöðu minni til hátekjuskattsmarkanna þá skal ég taka það fram að sjálfsagt hefur það ekki verið í upphafi ætlan löggjafans að leggja hátekjuskatt á miðlungstekjur eins og nú er gert. En á hinn bóginn treysti ég mér ekki til þess að greiða atkvæði með hækkun þeirra marka að lágtekjumörkunum, skattleysismörkunum, óhreyfðum.

[15:00]

En ég vildi aðeins minnast á, af því að ég hef gert það áður, vinnubrögð í sambandi við þessi mikilvægu mál eins og þetta mál og raunar aðalmál fjármálanna, fjárlagafrv. Látum svo vera að hæstv. ríkisstjórn vilji vinna slíkar tillögur í miklum trúnaði. En hún á ekki erindi við hið háa Alþingi í fyrsta falli. Fyrst sýnir hún málið fjölmiðlum til þess að lofa þeim að predika yfir því og leggja út af því. Þetta er eitt með öðru sem sýnir þá umgengni sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnvöld almennt temja sér gagnvart hinu háa Alþingi.

Varðandi fjárlögin sjálf og umræðu um þau fær maður alls engan tíma að kalla til þess að ígrunda þau. Og maður sér ekki stefnumótunarræðu hæstv. fjmrh. fyrr en maður er sestur á þann sama fund þar sem málið er tekið til umræðu, og á einum degi, og að því búnu vísað aftur til desembermánaðar.

En það sem ég á þessu stigi málsins finn þessum málatilbúnaði öllum mest til foráttu er að uppi er sú stefna, kennd Seðlabankanum, að beita okurvöxtum í þjóðfélaginu til þess að draga úr þenslu, til þess að baráttan við viðskiptahallann og hríðfallandi gengi hafi framgang. Þetta eru hagfræðikenningar sem ég minnist að á skólaárum mínum var haldið mjög að mér. Þar að vísu, og má skjóta því inn í, hafa þeir það eins og í fleiru sér til afbötunar, hæstv. ríkisstjórn, að Birgir Ísleifur Gunnarsson sé að framkvæma þessa stefnu. Þeir sem störfuðu í Sjálfstfl. lengi vita að Birgir Ísleifur Gunnarsson hefur aldrei gengið um þvert gólf án þess að hafa skriflegt umboð forustu flokksins til þess arna. Og fyrir því er það að þetta er auðvitað stefna ríkisstjórnarinnar, okurvextirnir, og gerðir í þeim tilgangi sem ég lýsti hér áðan. Og þykir engum mikið og er ekkert undarlegt enda þótt vextirnir kunni rétt u.þ.b. að vera að setja mörg fyrirtæki á hliðina.

Þessar tillögur ganga í þveröfuga átt. Þær ganga í þá átt að lækka álögur á fyrirtækjum sérstaklega og gera þeim kleift að auka umsvif sín. Og hvað þýðir það? Það vinnur auðvitað gjörsamlega á móti þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur hinum megin við þilið, uppi í Seðlabanka. Það eru þessi gagnvirkandi áhrif málatilbúnaðarins sem mér er hulin ráðgáta að menn skuli fara nú. Miklu skjótvirkari leið hefði verið að lækka vextina en það er kannski jafnröng aðferð í þessari miklu spennu og þenslu sem við búum við.

Eins og ég segi virðist sem hæstv. ríkisstjórn hafi í mörgum mjög veigamiklum þáttum misst tök á stjórn fjármála og peningamála, og þar eru ekki, þótt sjálf afkoma ríkissjóðs sé bærileg, öll kurl komin til grafar. Og maður hlýtur enn að spyrja: Hvernig í ósköpunum má það vera að sjálfum fjárlögunum skuli ekki vera beitt í þessu skyni? Aðalvopni stjórnvalda til þess að hafa hemil á þenslu og verðbólgu. Ár eftir ár, árum saman, er það ekki borið við. Og nú fáum við í hendurnar fjárlagafrv. sem er 14% hærra en fjárlagafrv. sem flutt var á þinginu í fyrra. Og engin ástæða til að ætla að nein breyting verði á því að hækkun útgjaldaliða fjárlaga verði langt umfram verðlagsþróun.

Já, það kom fram í máli hæstv. fjmrh. að mikil ánægja væri á fjármagnsmarkaði vegna þessara ákvarðana og hann hefði tekið mjög við sér þegar þetta spurðist. Ég verð að segja alveg eins og er að mér hrýs hálfgert hugur við þeim vinnubrögðum sem hafa tíðkast, t.d. á verðbréfaþingum okkar. Og ég man ekki betur en að fyrir örskömmu síðan, kannski mánuði eða svo, hafi þeir kallað upp yfir sig þar að nú væri hinni mjúku lendingu náð og nú væri hægt að taka á ný til óspilltra málanna. Þetta eru fjárglæframenn, margir þessara ungu manna sem starfa á þessum mörkuðum, fjárglæframenn sem hafa narrað fólk til þess að ausa yfir sig skuldunum svo að seint verður bitið úr nálinni með vinnubrögð þeirra. Menn spila matador í hlutafélögum og sitja svo eftir með sárt ennið, gjaldþrota.

Þannig er skuldasöfnun í þessu þjóðfélagi. Ríkisbankarnir sjálfir --- að þeir skyldu ekki vera stöðvaðir af með það að dæla inn fé vegna vaxtamunar erlendis og hér --- dældu hér inn fé eins og ölvaðir menn. Og halda menn að ekki þurfi að borga þetta? Og hver ætlar, hæstv. fjmrh., að greiða 200 þús. millj. kr. skuld sem sjávarútvegurinn í hagræðingarskyni hefur stofnað til? Því allt sem hann gerir í þessu sambandi, bæði að eyða fiskstofnum og safna skuldum, er hagræðing á þeirra máli. Það kemur að því að borga þurfi þessar ógnarskuldir og það er kvíðvænlegt. Því margir sem lítils mega sín í fjármálum hafa verið narraðir til kaupa á bréfum sem síðan eiga eftir að verða og eru þegar orðin verðlítil.

Það er auðvitað góðra gjalda vert að gerðar séu tillögur og sett lög sem hvetja menn til þess a.m.k. að vinna í landinu sínu og reka fyrirtæki þar. En ég held að t.d. í vaxtamálum þyrfti nú gott betur og aðra aðstöðu til að fyrirtæki erlendis færu að flytja heim í stórum stíl. Ég er ekki mjög vongóður um það.

Við vitum að meginþáttur þess að sæmilega hefur tekist til um jafnvægi í þjóðarbúskapnum á allmörgum undanförnum árum hefur verið að þakka því samkomulagi sem hæstv. ríkisstjórnin hefur náð við samtök verkalýðsins. Nú bregður svo við að þegar þessar tillögur liggja fyrir verkalýðssamtökunum eru viðbrögð þeirra ískyggileg. Og enda þótt meginþungi af þessum breytingum komi ekki til framkvæmda og hafi ekki áhrif fyrr en 2003 er ekkert undarlegt þótt verkalýðssamtökin uggi að sér og bregðist við því sem nú á að fara að lögsetja þótt það komi aðeins síðar til framkvæmda vegna þess að sú lykkjustund er ekki löng.

Og hér leyfi ég mér, hæstv. forseti, að vísa til greinargerðar þeirra í nokkrum þáttum til þess að ég, fyrir mitt leyti, láti koma fram hversu miklar áhyggjur ég hef af þeim.

Verkalýðshreyfingin, Alþýðusambandið, segir svo, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin`` --- og ég les þetta til þess að þetta komist í þingtíðindi og verði þar skráð --- ,,er ekki aðeins að þrengja mjög að möguleikum verkalýðshreyfingarinnar til að ná til baka þeirri kjaraskerðingu sem orðið hefur undanfarna mánuði, heldur auka hana enn frekar. Boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú ganga þannig þvert á kröfur verkalýðshreyfingarinnar um aðgerðir sem leiddu til lækkunar verðbólgu. Gangi boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eftir er vandséð hvernig verkalýðshreyfingin getur komist hjá því að segja upp launalið kjarasamninga í byrjun næsta árs og beita samtakamætti sínum til að sækja kjarabætur fyrir félagsmenn sína.``

Hér er talað tæpitungulaust og því miður, að mínum smekk, í nokkrum hótanatón. En þeir telja sig vafalaust vera í fullkomnum rétti með það og beita því þess vegna.

Þeir segja svo enn fremur, með leyfi forseta, að skattalækkanirnar muni fyrst og fremst skila sér til hátekjufólks og eignamanna á sama tíma og skattleysismörkum verði haldið óbreyttum. ,,Niðurstaðan er sú að venjulegt fólk á að taka á sig kjaraskerðinguna.``

Svo segja þeir enn, með leyfi forseta:

,,Þess vegna er það mat okkar að aðgerðin sem slík, sem hefur þá yfirskrift að efla íslenskt atvinnulíf, muni auka samdrátt í fyrirtækjunum vegna kjaraskerðingar sem leiðir af aðgerðinni.``

Þetta er alvarlegt ef rétt reynist og ég kann ekki að meta í sjónhendingu. Ég veit aðeins það að á næstunni þarf hæstv. ríkisstjórn á því að halda frekar en nokkru sinni áður að ná góðu samkomulagi við verkalýðshreyfinguna.

Það er vonandi að ýmsir þættir í þessum tillögum verði til þess að leiða verkalýðshreyfinguna til samkomulags. Aðrir hafa greinilega þveröfug áhrif. Og það er það alvarlega í málinu.

Ég ætla, eins og ég sagði, ekki að taka afstöðu til einstakra þátta í þessum tillögum. Mér hefur ekki gefist kostur á að ræða þá við mitt fólk og fyrr er ekki hægt að ætlast til þess að einstökum þáttum verði gerð skil, þótt það sé að vísu lítill vandi með einstaka þætti málsins.