Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 15:44:04 (292)

2001-10-09 15:44:04# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þm. velvirðingar ef ég hef ekki skilið fyllilega spurningu hans. Ég er ekki einu sinni viss um að ég hafi enn áttað mig fyllilega á því hvert hann er að fara. E.t.v. áttaði ég mig á spurningunni en ég get alls ekki ráðið í hvaða leiðir þingmaðurinn vildi helst fara í því efni.

Ég kem aftur að því sem ég hef sagt, að ef við með þessari lagasetningu, eins og með svo margvíslegri lagasetningu drögum fram þau áhrif sem eru mismunandi eftir byggðum landsins, hvort sem við erum þar að tala um höfuðborgarsvæði, landsbyggð eða sjávarbyggðir eða til sveita, þá eigum við að leita annarra leiða til að koma til móts við þau.

Ég undirstrika að ég er stuðningsmaður þeirrar byggðastefnu sem rekin hefur verið og tel að við megum þar síst slaka á. Við verðum að styðja við byggðir landsins. En skattkerfið er ekki rétta verkfærið til slíkra hluta.