2001-10-10 15:07:07# 127. lþ. 8.3 fundur 100. mál: #A mat umsjónarnefndar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á gildi lands norðan Vatnajökuls# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Eins og kunnugt fóru níu samtök sem starfa á sviði náttúruverndar fram á það við stjórnvöld að verndar- og útivistargildi svæðisins fyrir norðan Vatnajökul yrði metið faglega og mat lagt á gildi þjóðgarðs á þessu svæði samhliða vinnu við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.

Með bréfi iðn.- og viðskrn. hinn 22. september á síðasta ári var því beint til verkefnisstjórnar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að hún kannaði hvort og þá hvernig unnt væri að bregðast við erindi samtakanna. Í framhaldi af því var verkefnisstjórn rammaáætlunar falið þetta sérstaka verkefni þar sem ljóst þótti að margir þættir í vinnu við undirbúning rammaáætlunarinnar gætu nýst við verkið auk margvíslegra gagna sem safnað hefur verið af öðrum aðilum, m.a. Landsvirkjun, vegna vinnu við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Efnistök gátu þó ekki orðið með þeim hætti sem að er stefnt við samanburð virkjunarkosta í rammaáætlun þar sem þær aðferðir voru ekki að fullu mótaðar.

Í lok október 2000 var lögð fram tillaga að verklýsingu fyrir verk þetta sem iðnrh. féllst á. Í samræmi við verklýsinguna fól verkefnisstjórnin sérstakri umsjónarnefnd að stýra verkinu. Vinnan reyndist nokkuð umfangsmeiri en í upphafi var gert ráð fyrir og tók því lengri tíma en upphaflega var áætlað. Nefndin lauk störfum í ágúst síðastliðnum með því að skila drögum að skýrslu til verkefnisstjórnar.

Auk þeirra er skipuðu umsjónarnefndina hafa ýmsir komið að þessu verki á vegum verkefnisstjórnar. Ber þar helst að nefna Þjóðhagsstofnun sem vann greinargerð um efnahagslegt gildi þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Verkefnastjórnin mun senda iðn.- og viðskrh. í þessari viku niðurstöður sína.