Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:58:48 (408)

2001-10-11 10:58:48# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:58]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. viðbrögðin að öðru leyti en því að reyna að skella skuldinni á ástandinu á sjúkraliða sem standa utan Sjúkraliðafélags Íslands. Þeir standa ekki í vegi fyrir því að gengið verði til samninga á grundvelli kröfugerðar Sjúkraliðafélagsins.

Krafan er sú að launakjör stéttarinnar verði bætt umtalsvert og að sjúkraliðar verði ekki settir skör lægra en aðrar stéttir utan sem innan heilbrigðisþjónustunnar sjálfrar. Þetta er ekki aðeins réttmæt krafa af hálfu sjúkraliða, heilbrigðisþjónustunni er lífsnauðsynlegt að verða við þessari kröfu til að geta mannað sjúkragangana, til þess að einhver fáist til að taka það að sér að sinna sjúku fólki allan ársins hring, um helgar og virka daga, til að vaka þegar aðrir eiga frí, um jólin og páskana.

Halda menn að hægt sé að ganga að því sem vísu að fólk fáist til þessara ábyrgðarmiklu starfa, sem eru bæði krefjandi og lýjandi, fyrir laun sem eru að meðaltali fyrir stéttina 117 þús. kr. í grunnlaun, byrjunarlaun um 90 þús. kr.?

[11:00]

Halda menn að fólk bíði í röðum til að starfa á þessum kjörum eða við þessi erfiðu störf? Ef einhver stendur í þeirri trú að þetta gangi upp er það hrapallegur misskilningur enda er brostinn á flótti úr þessari starfsstétt vegna þeirrar óbilgirni sem henni er sýnd, vegna þeirra kjara- og starfsskilyrða sem henni eru búin.

Herra forseti. Ég spyr: Hvað stendur í vegi fyrir því að samið verði? Eru einhvers staðar gerðar við það athugasemdir að launakjör sjúkraliða verði bætt? Ef svo er, þá er hér með óskað eftir því að sá hinn sami gefi sig fram.

Er andstaða í ríkisstjórninni eða eru samtök atvinnurekenda að gera athugasemdir? Ef svo er, þá skyldu þeir rísa upp úr leðursófunum og leyfa okkur að heyra í sér. Við gætum spjallað um launaskrið hjá ýmsum hálaunahópum í þjóðfélaginu og það hróplega kjaramisrétti sem hefur verið að myndast í landinu.

Reyndar trúi ég því ekki (Forseti hringir.) að neinn vilji bregða fæti fyrir sjúkraliða. Hitt þykir mér líklegra að hæstv. fjmrh. muni hafa stuðning (Forseti hringir.) yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar til að gera myndarlegt átak, bæta kjör sjúkraliða og binda (Forseti hringir.) þannig enda á þessa alvarlegu kjaradeilu.

(Forseti (HBl): Hv. þm. hefur tvær mínútur. Það er naumt skorinn stakkur í tíma í utandagskrárumræðum og ekki ætlast til að menn lesi upp af blöðum eftir að rautt ljós er komið.)