Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:37:40 (424)

2001-10-11 12:37:40# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:37]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er býsna athyglisvert þegar hv. þm. Sjálfstfl. koma hér upp og gefa yfirlýsingar. Við heyrðum fyrr í umræðunni miklar yfirlýsingar frá hv. þm. Halldóri Blöndal, forseta Alþingis, sem voru miklum mun kröftugri en þær yfirlýsingar sem hér komu fram hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni. Það er því eðlilegt að spyrja hv. þm. aðeins út í hvað hann á við með því að dregið hafi úr trúverðugleika fjárlaganna og að hann vilji berjast fyrir því að auka hann. Þetta er auðvitað, eins og ég sagði, ekki sama yfirlýsing og hv. þm. Halldór Blöndal gaf þar sem hann tók afdráttarlaust fram að hann treysti ekki framkvæmdarvaldinu, hann treysti ekki fjárln. og eins og hv. þm. Kristján Pálsson benti á er meiri og minni hluti ekki það sama, t.d. í fjárln., það er augljóst mál. Ég skil orð hv. þm. Halldórs Blöndals þannig að hann treysti ekki meiri hluta fjárln., hann treysti ekki framkvæmdarvaldinu, hann treysti ekki hæstv. fjmrh. fyrir fjármálum ríkisins, a.m.k. að því er snýr að Alþingi.

Mér fannst hv. þm. Kristján Pálsson vera að einhverju leyti að taka undir með hv. þm. Halldóri Blöndal, þó að hann hafi ekki gengið jafnlangt. Mér þykir því nauðsynlegt á þessu stigi að algjörlega liggi ljóst fyrir hvort hv. þm. Kristján Pálsson er að taka undir með forseta Alþingis eða hvort hann á við eitthvað annað, því að hv. þm. nefndi m.a. stofnun sem hv. þm. Halldór Blöndal nefndi einnig, þannig að hann var með ýmsar vísanir í þá átt að hann væri að einhverju leyti að taka undir með forseta þingsins. Það er auðvitað afar merkilegt ef tveir hv. þm. Sjálfstfl. eru að gefa eitthvað slíkt í skyn og gæti kallað á það að við yrðum að taka hér upp umræður um hvert traustið væri orðið í þingflokki Sjálfstfl. til ríkisstjórnarinnar.