Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:39:52 (425)

2001-10-11 12:39:52# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:39]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er algjör útúrsnúningur hjá hv. þm. sem er náttúrlega ekki svaraverður. Það er fyrst og fremst verið að reyna að tala af hreinskilni um hvernig fjárlög þróast og hvað mætti betur fara. Hv. þm. er kannski ekki vanur hreinskilinni umræðu um þau mál sem skipta einhverju.

Auðvitað skiptir máli að fjárlögin séu eins trúverðug og kostur er. Það hafa augljóslega komið upp mörg dæmi þess að fjárveitingar til ýmissa stórra framkvæmda hafa verið allt of naumar og framúraksturinn svo mikill að menn hefur sett hljóða. Þar hefur komið til umræðu t.d. skrifstofubygging Alþingis. Margt annað hefur reyndar einnig komið til sem ég ætla ekkert endilega að telja hérna upp. En vegna þess að þetta eina atriði kom upp, þá hefur það að mínu áliti dregið úr trúverðugleika áætlunargerða og eftirlitskerfis ríkisins og náttúrlega þá fjárlaga um leið, að slíkar ótrúlegar framúrkeyrslur skuli geta gerst án þess að nokkur einasti maður virðist vita um það eða ætla sér að bera ábyrgð á því. Mér finnst það mjög slæmt og ég hika ekkert við að láta það koma fram á þessum stað.

Ég vil taka fram að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Og ef eitthvað er, þá finnst mér að núv. ríkisstjórn hafi tekið þetta alvarlega og það er virkilega verið að reyna að skoða þetta ofan í kjölinn. Það er verið að leita leiða í gegnum Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðanda og fleiri aðila.

Það sem ég var að benda á einnig eru sjálfvirk útgjöld sem hafa verið samþykkt hér á Alþingi. Alþingi hefur sjálft skammtað margt af því sem við erum í vandræðum með í dag.