Samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:45:35 (454)

2001-10-11 14:45:35# 127. lþ. 9.4 fundur 136. mál: #A samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar# (reglugerð) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að síðasta athugasemd hæstv. viðskrh. hafi verið óþörf. Ég vænti meira af hæstv. viðskrh. en þessa litla frv. og býst ekki við að það sé hennar stærsta mál. Engu að síður erum við að reyna að átta okkur á hvað í þessu felst, herra forseti, og því er kallað eftir viðbrögðum ráðherra.

Ég spyr t.d. hvort ráðherrann gæti fallist á það sem ég teldi ákveðinn öryggisventil fyrir neytendur, af því að hér er um að ræða málsmeðferð gagnvart neytendum, þ.e. í því tilfelli sem kemur upp ósanngjörn málsmeðferð gagnvart þeim, að skoða breytingu á 1. gr. þessa frv. í þá átt að ráðherra væri heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laganna í samráði við Neytendasamtökin. Það væri sem sagt hægt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð en ráðherrann yrði a.m.k. að leita umsagnar eða hafa samráð við Neytendasamtökin um setningu slíkrar reglugerðar, sem snertir eins og ráðherrann réttilega nefndi, neytendavernd. Um það spyr ég, herra forseti, hvort ráðherrann er opin fyrir því að kanna hvort gera ætti þá breytingu á ákvæði þessa frv.