Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 14:54:47 (576)

2001-10-16 14:54:47# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða eru nefnd fjögur markmið, fjórar göfugar leiðarstjörnur sem lögin eiga að tryggja að farið sé eftir og tryggð séu. Í fyrsta lagi er talað um sameignina, þ.e. sameign þjóðarinnar, í öðru lagi um verndun nytjastofnanna, í þriðja lagi um hagkvæma nýtingu og í fjórða lagi og ekki er það veigaminnsta markmiðið, að tryggja atvinnu og byggð í landinu.

Herra forseti. Ef litið er á einstök markmið má segja þetta: Sameign þjóðarinnar er stöðugt að færast á færri hendur. Í skýrslu sem unnin var fyrir Byggðastofnun um sjávarútveg og byggðaþróun á Íslandi, kemur m.a. eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Tuttugu stærstu handhafar veiðiheimilda í september 1992 réðu yfir 36% af heildarveiðiheimildunum. Í mars 2001 hafa 20 stærstu handhafarnir nú yfir að ráða 59% af veiðiheimildunum. Af þessu er ljóst að yfirráð veiðiheimilda hafa safnast á færri hendur.

Með hliðsjón af því hvernig veiðiheimildir hafa flust milli byggðarlaga og þróun íbúafjölda á landsbyggðinni hefur verið er ljóst að ákvarðanatökur stjórnenda þeirra fyrirtækja, sem fram koma á töflu 2, geta orðið afdrifaríkar fyrir þróun byggðar á næstu árum að öllu óbreyttu.``

Herra forseti. Samkvæmt þessu sést að veiðiheimildir eru stöðugt að færast á færri hendur og nú ráða 20 stærstu handhafar veiðiheimildanna yfir tæplega 60% þeirra.

Í öðru lagi er talað um verndun. Setja má stórt spurningarmerki við það hvort það markmið hafi náðst. Mér sýnist að flestir botnfiskstofnar séu í lægð. Eflaust hefur markmið með friðun síldar tekist á sínum tíma, sem oft er vitnað til, en ástand fiskstofnanna er ekki eins og vænta mætti af þessum lögum. Það er langt í frá. Og ég held að setja verði stórt spurningarmerki gagnvart því hvernig nýtingu þeirra er háttað.

Í þriðja lagi er talað um hagkvæma nýtingu. Hagkvæm nýting er ekki bara arður fárra fyrirtækja. Fiski er hent, við heyrum stöðugt fleiri sögur af því. Það mætti líka nýta margt af því sem er hent, eins og hausa og hryggi og flytja út, t.d. er Nígeríumarkaður vel móttækilegur fyrir slíku. Af þessu sést að nýtingin er engan veginn eins og best væri á kosið.

Herra forseti. Í fjórða lagi var það markmið laganna að tryggja atvinnu og byggð í landinu. Ég held að menn fari ekki í grafgötur um að þar hafi kannski pottur helst verið brotinn.

Mig langar til að nefna eitt lítið dæmi um kvóta heima í héraði, ef hann fer hefur hann áhrif á íbúaþróunina á viðkomandi stað. Það er ekki endilega samasemmerki milli þess að fólkið flytji þangað sem kvótinn fer. En óöryggið losar um fólkið og það fer. Með leyfi forseta, vil ég lesa úr áðurnefndri skýrslu:

,,Mynd 8 sýnir sama fyrir Hrísey og mynd 7 sýnir fyrir Ísafjörð og Hnífsdal. Margt er svipað með þessum myndum. Íbúum Hríseyjar fækkar öll árin frá og með 1995. Á tímabilinu frá 1995 til 2000 fækkar íbúum Hríseyjar um 89. Þeir voru 277 í árslok 1994 en í árslok 2000 voru þeir komnir niður í 188.

Veiðiheimildir höfðu minnkað úr 4.038 fiskveiðiárið 1992/1993 í 579 fiskveiðiárið 2000/2001, eða um 3.459 þorskígildistonn.``

Herra forseti. Þarna er nefnt dæmi þar sem íbúum í einu sveitarfélagi fækkar um þriðjung á sama tíma og veiðiheimildir minnka í 579 tonn úr 4.038.

Niðurstaða skýrslunnar er þessi, með leyfi forseta:

,,Hér að framan hefur verið leitast við að svara þeirri fyrirspurn stjórnar Byggðastofnunar hvort lögin um stjórn fiskveiða hafi haft áhrif á byggðaþróun í landinu. Ljóst er að ákvæði laganna um frjálst framsal veiðiheimilda hefur haft víðtækar afleiðingar á þróun byggðar í landinu með tilflutningi aflaheimilda á milli landshluta og einstakra byggðarlaga. Sem dæmi má nefna að byggðarlög á Snæfellsnesi eru að styrkjast en byggð á Vestfjörðum að veikjast. Þetta hefur leitt til verulegrar skuldaaukningar í sjávarútvegi, lækkunar launa í fiskvinnslu í samanburði við aðrar atvinnugreinar og fólksflótta af landsbyggðinni.``

Herra forseti. Hér ber allt að sama brunni. Sennilega hefur engin ein löggjöf haft sömu áhrif á íbúaþróun í landinu og fiskveiðilöggjöfin. En sem betur fer virðast sumir vera að vakna og maður heyrir jafnvel talað um að auka byggðakvóta til að koma til móts við þá staði sem mest er að blæða eftir skyndileg áföll. Og þess eru dæmi að slík kvótaúthlutun hefur bætt ástand á þeim stöðum.