Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:31:34 (594)

2001-10-16 16:31:34# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er eins og fyrri daginn að þó að umræður séu líflegar er minnst talað um dagskrármálið. Það er helst að hv. þm. annarra flokka en þess sem í heilu lagi flytur frv. reyni að ræða það eitthvað á málefnalegum grundvelli.

Hins vegar verð ég að segja að sú ræða sem ber hæst í umræðunni er ræða hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar sveitunga míns, og leikrænir tilburðir hans í ræðunni sem minna mig á gamla góða daga þegar við lékum saman í skólaleikriti og ef ég man rétt lék hv. þm. eðlisfræðing sem var með þá firru í kollinum að hann væri sir Isaac Newton. En hvað um það, það er önnur saga.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson bar sig illa undan þeim orðum mínum fyrr í umræðunni að hann hafi ekki haft neinn vilja til þess að semja í endurskoðunarnefndinni, til þess að leita sátta, og hafi verið bundinn við flokkslínuna sem kemur fram í dagskrármálinu sem er frv. flutt hér í þriðja skipti. Síðan heldur hann því fram að bæði ég sjálfur og fulltrúar Sjálfstfl. hafi, ekki síður en hann, verið bundnir á klafa flokkssamþykkta þar sem formaðurinn, hæstv. forsrh., hafi á landsfundi um síðustu helgi hvatt til þess að ályktunardrög, þar sem tekið er undir niðurstöður endurskoðunarnefndarinnar, væru samþykkt.

Það er svolítið athyglisvert að skoða tímaröðina í þessu. Við erum annars vegar að tala um frv. sem er flutt á þriðja þinginu í röð, þ.e. búið að flytja það þrjú ár í röð. Hv. þm. vill ekki víkja frá því í nefndarstarfi, hann segir meira að segja frá því í greinargerðinni að hann hafi ekki viljað samþykkja ákveðna hluti og þegar í ljós hafi komið að hann hafi ekki viljað samþykkja þá hafi tilraun til sátta mistekist og hann hafi þar af leiðandi ekki verið með í því að ná sáttinni sem meiri hlutinn náði. Hins vegar er tímaröðin sú að á landsfundi Sjálfstfl. 1999 vék flokkurinn frá fyrri samþykktum sínum, um að leggja ekki á veiðileyfagjald, í þá átt að veiðileyfagjald kæmi til greina og hann vildi vinna að því að leita að sátt í því efni vegna þess að sáttin í sjálfri sér væri mikilvæg vegna stöðugleika greinarinnar. Víðtækari sátt væri mikilvæg vegna greinarinnar.

Síðan er þetta nefndarstarf í gangi, fyrst auðlindanefndin og síðan endurskoðunarnefndin, og út úr því kemur niðurstaða, meirihlutaniðurstaða sem formaðurinn leggur til að flokkurinn samþykki og hann samþykki þar með að taka upp veiðileyfagjald. Hann er tilbúinn til að leita sátta og víkja frá skoðun sinni um að ekki sé skynsamlegt að leggja á veiðileyfagjald, og taka upp veiðileyfagjald. Það er greinilegt að hinir sem vilja bara einhverjar sérstakar leiðir í útfærslunni --- og þeim nægir ekki að það sé viðurkennt grundvallaratriði --- vilja láta kné fylgja kviði og að nákvæmlega þeirra leið verði farin. Það er ekki nóg að það sé viðurkennt að allur almenningur eigi að hafa sjáanlega hlutdeild í arðinum af auðlindinni, það sé viðurkennt í orði og verki, heldur á líka að fara aðra leið sem rífur heimildirnar af þeim sem eru með þær, af byggðunum, og guð má vita hvert þær fara.

Það sjá auðvitað allir að það er stórkostlegur munur á þessari afstöðu og þessari aðferðafræði. Engin samlíking um flokkslínuna er í þessu. Það er hins vegar athyglisvert að hv. þm. Jóhann Ársælsson spyr síðan um afstöðu hins stjórnarflokksins og hvort ráðherrann sé bundinn flokkslínunni. Framsfl. ákvað að fara aðra leið í því að vinna úr sínu máli. Hann skipaði til þess nefnd. Hann hefur löngum gert það í stórum og miklum málum og það hefur komið ágætlega út fyrir hann. Sú nefnd mun væntanlega skila niðurstöðu mjög bráðlega. Það er auðvitað ekki ljóst hver niðurstaða hennar verður en það er síðan auðvitað hlutverk sjútvrh. að vinna úr þessum efnivið og koma með frv., fara síðan með það inn í ríkisstjórn og þingflokka. Auðvitað eru líkur til þess að þetta frv. verði í samræmi við samþykktir flokkanna. Gangi þær samþykktir eitthvað á misvíxl þurfa auðvitað flokkarnir að leysa úr því ósamræmi en fram til þessa hefur það ekki vafist fyrir þessum flokkum að leysa úr málum og koma fram með farsæla niðurstöðu.

Hv. þm. Gísli S. Einarsson vék að alvarlegu máli ef satt reynist. Ég þekki ekki þá frétt nákvæmlega sem hann var að vitna í en hann var að vitna til þess að uppi væru höfð skattsvik í skjóli kvótasvindls. Það er auðvitað skattyfirvalda fyrst og fremst að taka á þessu máli en þurfi þeir atbeina sjútvrn. eða stofnana þess eins og Fiskistofu verður hann að sjálfsögðu veittur.

Nokkrir þingmenn, þar á meðal hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson, Kristján Möller og Karl V. Matthíasson og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, viku að byggðamálunum. Þeir tína auðvitað til valin dæmi um það hversu illa er farið með byggðirnar. Staðreyndin er hins vegar sú að frá því að kvótakerfið var tekið upp hafa ekki orðið meiri breytingar á milli byggðarlaga í lönduðum afla en var áður. Margsinnis hefur verið sýnt fram á þetta. Það var talað um þegar tilteknir togarar hurfu úr byggðarlögum eftir að kvótakerfið var tekið upp. Hvernig var þetta fyrir daga kvótakerfisins? Þá hurfu líka togarar úr byggðarlaginu, og meira að segja margir á fjórða áratugnum þegar togaraflota Ísfirðinga var siglt til Nýfundnalands og hann seldur. Ég tala nú ekki um þegar síldin hvarf, þá voru uppi erfiðleikar á Siglufirði og á Ströndunum. Þessir hlutir gerast algerlega óháð því hvort það er kvótakerfi eða ekki. En þessi byggðaáhrif eru auðvitað sérmál út af fyrir sig og of langt mál að fara út í hér miðað við þann tíma sem ég hef í þessari ræðu.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson nefndi norsk fyrirtæki og aðkomu þeirra að íslenskum fyrirtækjum. Ég þekki þetta ekki nema úr fréttum í fjölmiðlum. Þar kom fram að íslensk fyrirtæki væru með skip skrásett á Íslandi sem hefðu tryggingar erlendra aðila í fjármögnun sinni. Það er ekkert ólöglegt við þetta en vel getur verið að einhverjum finnist það óæskilegt. Ég ætla ekki að kveða upp neina dóma um það. En þetta gæti staðið á bak við spurningu hv. þm. um þetta efni.

Það kom m.a. fram hjá hv. þm. Karli V. Matthíassyni að hann hefur miklar áhyggjur af því hvað gerist þegar aflaheimildir fara úr byggðarlaginu, og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson tók undir þær með honum. Þeim virðist hins vegar ekki vera sama um það hvernig aflaheimildirnar fara. Þeim virðist vera alveg sama um það hvað mundi gerast ef þær færu vegna þess að fyrirtækin gætu ekki ráðið við að kaupa þær á uppboði í keppni við fjársterkari aðila annars staðar frá. Þá hafa þeir engar áhyggjur af því að veiðiheimildirnar fari. En veiðiheimildirnar geta alveg eins farið á þann hátt og eru meira að segja miklu líklegri til að fara á þann hátt heldur en á nokkurn annan hátt.

Það hefur síðan verið vísað heilmikið til landsfundar Sjálfstfl. Hann er að sönnu merkileg pólitísk stofnun og sennilega eru ekki margar pólitískar stofnanir fyrir utan ríkisstjórn og Alþingi sem eru merkilegri en landsfundir Sjálfstfl. En þar var ákveðið að flokkurinn vildi að tekið yrði upp hóflegt veiðileyfagjald til sátta. Þetta gjald yrði, eins og staðan er í dag, tvisvar til þrisvar sinnum hærra en það gjald sem nú er greitt. Bæði yrði um kostnað að ræða og sýnilega hlutdeild í umframhagnaði útgerðarinnar þannig að þessu á að vera vel til skila haldið. En ef menn eru eitthvað að efast, herra forseti, um að menn þori að taka afstöðu í atkvæðagreiðslum á landsfundi Sjálfstfl. verða menn auðvitað að hafa slíkar efasemdir fyrir sig. Þessi tiltekna atkvæðagreiðsla, herra forseti, var hins vegar skrifleg og leynileg þannig að það þurfti enginn að hafa neinar áhyggjur af því að einhver annar vissi hvernig hann greiddi atkvæði.