Nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:29:54 (668)

2001-10-17 14:29:54# 127. lþ. 13.10 fundur 121. mál: #A nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil segja það við hæstv. ráðherra að ég var ekki með neinn skæting í hennar garð. Ég nefndi eingöngu staðreyndir og ég verð því miður að segja það einnig að mér fannst svör ráðherra ekki mjög beysin. Hún hefur nánast engu bætt við það sem áður hefur verið sagt.

Ég furða mig á því að ekki sé unnið hraðar að slíkum málum sem skipta svo miklu máli fyrir sveitarfélögin á þessu svæði, að það skuli taka mánuði og ég veit ekki hve langan tíma að fá greitt úr svörum sem eðlilega hefðu átt að liggja fyrir þegar afgreiðsla þessa máls fór fram í ráðuneytinu.

Ég vil bara segja, varðandi fjarlægðir frá höfuðborginni, að maður hefði í sjálfu sér ekki undrast að gengið yrði út frá radíus frá höfuðborginni sem mundi síðan eiga við um öll þau sveitarfélög sem innan hans væru. Ég get tekið Grindavík sem dæmi, sem er líka á Suðurnesjum. Grindavík var ekki tekin út af þessu korti. Ástæðan fyrir því var sú að þeir ættu svo mikið land. Grindvíkingar eru 2.300 en Sandgerðingar eru 1.400. Þessi rök eru svo út úr kú að maður áttar sig ekki á því hvernig hægt er að bera þetta á borð.

Sandgerðingar hafa átt í miklum erfiðleikum með sjávarútveg. Þeir eru búnir að missa nánast allan sjávarútveg frá sínu svæði. Í Garðinum eru ýmsir erfiðleikar og Garður er láglaunasvæði. Ef spurningin snýst um það hvort menn þurfi að fara í gegnum göng þá skýrir það kannski eitthvað en ég get ekki séð að það eigi við um allt í þessu máli.