Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:34:48 (670)

2001-10-17 14:34:48# 127. lþ. 13.4 fundur 63. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Þörf og eftirspurn eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins hefur aukist verulega undanfarin ár á sama tíma og stöðin hefur verið aðkreppt fjárhagslega. Atgervisflótti háir starfseminni. Stöðin er ekki samkeppnishæf í launum um sérfræðinga. Ekki hefur verið unnt að ráða staðgengla fyrir þá sem hættu störfum eða fóru í barneignarfrí og starfsmenn hafa ekki átt þess kost að fylgjast með því sem er að gerast í greininni. Á sama tíma og þeim fötluðu börnum sem stöðin þjónar fjölgar um meira en 100% og tilvísanir til hennar tvöfaldast fjölgar stöðugildum um tvö, úr tæplega 28 í um 30 stöður.

Verkefni hennar hafa aukist gífurlega án þess að fjárveitingar fylgdu þeim auknu verkefnum. Ég nefni dæmi. Fyrir fjórum árum tók Greiningarstöðin við þjónustu við einhverf börn af barna- og unglingageðdeildinni. Stöðin hefur nú fengið jafnmargar stöður til að sinna þeirri þjónustu og BUGL var með þegar hún gafst upp vegna ónógs mannskaps. Auk þess hafa nýlegar skilgreiningar og skilningur á einhverfu orðið til þess að fleiri börn greinast með þá fötlun og sama á við um Asperger-heilkennin. Blöndun fatlaðra barna í skólakerfinu kallar líka á aukna þjónustu stöðvarinnar.

Þörfin fyrir þjónustu við börn og ungmenni á skólaaldri hefur aukist verulega en slíkar tilvísanir hafa tvöfaldast á síðustu fjórum árum. Ég ætla að vitna í bréf frá móður sem bíður eftir þjónustu Greiningarstöðvarinnar fyrir barn sitt en bréfið var einnig sent hæstv. ráðherra. Hún segir, með leyfi forseta:

,,Yngsta barn mitt, átta ára drengur í Laugarnesskóla, bíður eftir greiningu hjá Greiningarstöð ríkisins vegna gruns um að hann sé annaðhvort með Asperger-heilkenni eða einhvers staðar á einhverfurófinu eins og sagt er.

Beiðni frá skólasérfræðingi er frá í maí í vor og mér er sagt að það sé engin von um greiningu á þessu skólaári. Þetta er algjörlega óviðunandi. Heilt ár í námi og þroska barns fer algjörlega í vaskinn vegna þess að réttur stuðningur frá réttum aðilum fæst ekki fyrr en greining liggur fyrir og glatast mikilvægt tækifæri til að koma honum til þroska á heilu ári.``

Hún segir einnig að drengurinn sé ekki í tengslum við það sem er að gerast í skólanum og að allt fari fyrir ofan garð og neðan hjá honum. Í fjárlagafrv. er ekki fjárveiting til að ráða bót á þessu afleita ástandi heldur rétt til að halda úti þeirri skertu þjónustu sem nú er veitt. Móðirin sem skrifar bréfið, Ragna Steinarsdóttir, mun ekki fá greiningu fyrir son sinn á þessu skólaári og það fá heldur ekki fjölmörg önnur börn í svipaðri stöðu, verði fjárveitingar ekki auknar.

Herra forseti. Ég spyr því hæstv. félmrh. (Forseti hringir.) vegna þessa alvarlega ástands:

1. Hversu löng bið er eftir greiningu og ráðgjöf hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins?

2. Á hvaða aldri eru þeir sem bíða, þ.e. hve margir í hverjum aldursflokki?

3. Eru einhverjir hópar fatlaðra sem njóta ekki þjónustu stöðvarinnar?

4. Eru uppi áform um úrbætur í málefnum stöðvarinnar og ef svo er, hverjar eru þær?