Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:43:37 (672)

2001-10-17 14:43:37# 127. lþ. 13.4 fundur 63. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Það var afar leitt að hæstv. félmrh. skyldi ekki ná að svara fjórðu spurningunni því að það er eflaust hún sem brennur á flestum.

Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessar fyrirspurnir á hinu háa Alþingi. Það sem er alltaf verst og erfiðast í þessum málum er biðin alveg frá því að grunur vaknar og þar til staðfesting liggur fyrir um það hvers er að vænta og hvað þurfi að gera. Þarna er um að ræða afar krefjandi vinnu og það er líka mjög mikilvægt að það starfsfólk sem þarna vinnur geti fylgst faglega með því hvað er að gerast annars staðar í heiminum því að alltaf eru nýjar og nýar upplýsingar að koma fram um einstakar fatlanir.

Við vitum líka hvaða hópur hefur orðið verst úti eða er erfitt að sinna og það er Asperger-hópurinn sem er í þessu einhverfurófi. Það er afar mikilvægt að vinna með þann hóp til þess að fyrirbyggja líka til framtíðar með því reyna að grípa inn í sem allra fyrst hvað þá krakka varðar.