Réttarstaða erlendra kvenna

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:00:06 (680)

2001-10-17 15:00:06# 127. lþ. 13.5 fundur 70. mál: #A réttarstaða erlendra kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:00]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Okkur Íslendingum hættir til að halda að hér á okkar kæra Fróni séum við óhult fyrir ýmiss konar óþverra sem þrífst víða úti í heimi. Hugtök eins og mansal, kynlífsþrælkun og heimilisþrælkun er nokkuð sem við lesum um og heyrum af í fjölmiðlum en hugsum svo með okkur að slíkt gerist ekki á Íslandi.

Herra forseti. Það hefur hins vegar komið í ljós að armar skipulagðrar glæpastarfsemi á borð við þá sem hér var nefnd hafa teygt sig hingað og við eigum að vera á varðbergi gagnvart henni hér ekki síður en úti í heimi. Þess vegna vil ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að taka upp þessi mál og vekja þannig athygli á þeirri umræðu sem á sér stað um þessi mál úti í löndum og hjá Evrópuráðinu þar sem hún á sæti.