Tillögur vegsvæðanefndar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:27:22 (693)

2001-10-17 15:27:22# 127. lþ. 13.7 fundur 85. mál: #A tillögur vegsvæðanefndar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég ætla að styðja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þegar hann leggur þingmálið fram enn einu sinni og halda áfram að koma með mín mál. Þetta er tíunda árið sem ég hreyfi þessari lausagöngu búfjár og ég hef ekki tölu á nefndunum eða tilvísununum til nefnda.

Hæstv. ráðherra nefndi 16 tillögur í niðurstöðum skýrslunnar. Má ég nefna tvær. Fyrst tillögu 15, með leyfi forseta:

,,Lögleitt verði bann gegn rekstri búfjár á þjóðvegum í rökkri og dimmu.``

Má ég nefna tillögu 16, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur til að við hönnun og lagningu nýrra vega verði gerðar tilraunir með að hafa á þeim undirgöng eða ,,opnar rásir`` við helstu rennslisleiðir búfjár.``

Það er sem sagt enn verið að ákveða að alls staðar eigi að gera ráð fyrir því að búfé sé á ferli í næstu nálægð við vegina og að á nýjum vegum og nýjum þjóðbrautum eigi að vera girt meðfram og rennslisleiðir undir. Það urðu mér gífurleg vonbrigði að heyra í hæstv. landbrh. Oft höfum við átt orðastað áður en hann komst í þetta embætti og ég var að vona að í þetta sinn kvæði við nýjan tón, að það yrði metnaður landbrh. að taka á í þessu máli. En þetta er sama svarið og undanfarin tíu ár, þ.e. að ríkisstjórnin þurfi að skoða, að búið sé að kynna niðurstöðu nefndarinnar, það þurfi samræmt átak o.s.frv.

Herra forseti. Það er afskaplega dýrt að girða meðfram öllum þjóðvegum og Vegagerðin á að greiða það. Hvernig væri að ríkisstjórnin liti einu sinni þannig á að þetta væri allt sami vasinn, tæki þetta fjármagn sem Vegagerðin á að leggja fram og færi í samvinnu við bændur, og landbrh. fengi það verkefni að skoða það að girða af stóru svæðin sem búfé er á? (Forseti hringir.) Auðvitað hef ég samúð með bóndanum og það er undantekningaratriði þegar vegurinn liggur þvert yfir jörðina.