Meðlagsgreiðslur

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:41:56 (698)

2001-10-17 15:41:56# 127. lþ. 13.8 fundur 86. mál: #A meðlagsgreiðslur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf og ekki síst fyrir það að hún er tilbúin til þess að skoða þær leiðir sem mögulegar eru til þess að gera þær lagabreytingar sem tryggja betri innheimtu meðlaga, þegar um aukið meðlag er að ræða, heldur en er í dag. Ég er alveg sannfærð um að það er töluverður hópur mæðra --- í flestum tilvikum er um að ræða einstæðar mæður --- sem aldrei leita eftir aðstoð við að innheimta þennan meðlagsauka vegna þess að það felur í sér kostnað sem þær ráða ekki við.

Eitt af þeim dæmum sem ég nefndi áðan að mér væri kunnugt um er af móður sem er með tvö börn og annað þeirra á við langvarandi erfið veikindi að stríða. Efnahagur er mjög bágur og hún hefur bara ósköp einfaldlega sagt: Ég get það ekki miðað við núverandi fyrirkomulag, ég get ekki staðið í því að innheimta þetta aukna meðlag sem barninu mínu þó ber til þess að tryggja framfærslu þess og tryggja að það hafi betri möguleika í lífinu vegna þess að það felur í sér það mikinn kostnað fyrir mig.

Þessar tvær leiðir sem hæstv. ráðherra bendir á eru þær leiðir sem ég hef verið að skoða. Ég hef verið að íhuga að flytja hérna frv. en að sjálfsögðu mun ég bíða þar til athugun ráðuneytis á málinu lýkur. Ég bið jafnframt hæstv. ráðherra að taka inn í umræðuna hvort einhver möguleiki sé að horfa sérstaklega til þeirra einstæðu foreldra sem eru með börn sem eiga við erfið langvarandi veikindi að stríða.

Virðulegi forseti. Að lokum ítreka ég að mér var ljóst að ég var að leggja fram fyrirspurnir sem hugsanlega væri erfitt að svara en starfsmenn ráðuneytis ásamt hæstv. ráðherra höfðu samband við mig og gerðu mér grein fyrir því hver staða málsins væri og inntu mig eftir hvað það væri sem ég vildi afdráttarlaust fá fram. Ég þakka enn og aftur fyrir þessi vinnubrögð. Maður á þeim ekki að venjast.