2001-10-30 13:37:18# 127. lþ. 16.91 fundur 81#B skerðing á starfsemi tæknifrjóvgunardeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[13:37]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að varpa fram spurningu til hæstv. heilbrrh. um starfsemi --- eða skerðingu á starfsemi --- glasafrjóvgunardeildar Landspítalans -- háskólasjúkrahúss.

Við vitum það öll að barnleysi er böl, herra forseti, og sennilega vita það fáir betur en þeir sem hafa reynt það á sjálfum sér um lengri eða skemmri tíma. Á síðustu árum vill hins vegar svo til að til skjalanna hefur komið ný og góð tækni sem gerir okkur kleift, góðu heilli, að hjálpa þeim sem ekki geta eignast börn með þessum hefðbundnu háttum, herra forseti.

Ég hygg að segja megi að í hvert skipti sem það er hægt sé verið að gera lítið kraftaverk. Á síðustu árum hefur okkur tekist með þessum hætti að gera 1.200--1.300 kraftaverk á þessari tilteknu deild. Á hverju einasta ári er verið að gera þar 350 aðgerðir og þriðjungurinn af þeim heppnast.

Það má segja, herra forseti, að þessi deild okkar hér á Íslandi taki langt fram flestum svipuðum deildum erlendis, og það er okkar gæfa sem höfum orðið aðnjótandi þjónustu þessarar deildar að það ágæta fólk sem kalla má burðarstoðir undir starfsemi hennar hefur ekki látið glepjast af gylliboðum erlendra stofnana sem hafa viljað fá þetta góða fólk til sín.

Á síðasta ári var aðgerðum þarna fækkað úr 350 í 305 og það var vegna kringumstæðna sem ég vil ekki segja að séu á valdi hæstv. ráðherra. Nú er enn verið að fækka aðgerðum niður í 292 á ári. Ég get ekki fallist á það, herra forseti. Mér sýnist að það sé vegna mistaka við útreikning á lyfjakostnaði fyrir þetta ár. Það vantar einungis 5 millj. til þess að hægt sé að framkvæma þær aðgerðir sem búið var að lofa. Það var búið að lofa fólki þessum aðgerðum, herra forseti.

Ég veit að það er hart í ári. Í góðri bók segir að guðs miskunn sé það fyrsta sem deyr í hörðu ári en ég veit að hæstv. heilbrrh. vill ekki bera ábyrgð á þessu miskunnarleysi og ég spyr hann því: Mun hann ekki gera sitt til að koma í veg fyrir að slík mistök valdi þessum skaða hjá nokkrum hópi fólks?