Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 15:56:06 (858)

2001-10-30 15:56:06# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst svör hæstv. ráðherra benda til að full ástæða sé til að kvíða framhaldinu í þessu. Nógur tími hefur verið til þess að vinna að undirbúningi þess að láta Norðurál hafa rafmagn og ýmsir möguleikar eru fyrir hendi til þess. Landsvirkjun hefur hins vegar bundið sig við það og bitið í sig að þessi Norðlingaölduveita yrði notuð. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ráðherrann nánast vera að lýsa því yfir að þessi rammaáætlunarvinna sé til einskis gagns, hún sé ekki til neins vegna þess að einhver lög í landinu komi í veg fyrir að hægt sé að fara eftir henni.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þetta. Ég er þá ekki hissa á því að hæstv. ráðherra hafi ekki tekið undir það sem ég er að segja hérna ef hæstv. ráðherra lítur þannig á málið að rammaáætlunin geri ekkert gagn vegna þessara laga og að Landsvirkjun geti bara verið í kjörbúðinni og valið þann kost sem henni dettur í hug og síðan eigi menn að skrifa upp á það hér, og að ekki sé litið á aðra kosti og einn kostur undirbúinn og síðan standi menn frammi fyrir því í hv. Alþingi að segja já eða nei við honum. Það er þá eins og vaninn hefur verið í þessum málum.

Það er nú ekki mikið að marka yfirlýsingarnar um það að menn vilji reyna að ná einhverjum sáttum ef vinnubrögðin eiga að halda áfram með þeim hætti sem við höfum séð á undanförnum árum og virðist eiga að birtast hér áfram gagnvart þinginu og þeim sem láta sig þessi mál einhverju skipta.

Ég segi það alveg eins og er að ég get svarað því játandi sem hæstv. ráðherra sagði að ég kvíði verulega fyrir þessu. Ef menn ætla sér að fara þá leið sem mér sýnist blasa við núna er ástæða til að kvíða því að mikil átök verði um það sem er fram undan og að það verði líka átök hér á hv. Alþingi ef menn standa frammi fyrir einum kosti sem stillt er upp þegar ekki er einu sinni þörf á því að hafa það þannig.