Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 17:34:08 (874)

2001-10-30 17:34:08# 127. lþ. 16.19 fundur 185. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna því frv. sem hér er fram komið sem hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir. Hér er um ákveðna herðingu að ræða varðandi kynferðislega misnotkun á börnum og því ber að fagna. Það má ekki gleyma því að á síðustu árum hefur ýmislegt komið í ljós, sérstaklega í þeim skýrslum sem hafa verið gerðar. Þar hefur pottlokinu verið lyft af ýmsu sem þrífst í samfélaginu, þ.e. það varð sýnilegt með þeim skýrslum. Þar er auðvitað líka um drengjavændi að ræða sem ekki var talið líklegt að viðgengist hér. En auðvitað er allt sem finnst erlendis líka hér. Ég fagna því þessum breytingum.

Ég fagna einnig þeirri vinnu sem er í gangi varðandi endurskoðun á þessum kafla hegningarlaganna sem og þeirri vinnu sem er í gangi hjá nefndinni, sem hefur eflaust margar dýrmætar tillögur í farteskinu. Ég er sérstaklega fylgjandi þeirri endurskoðun því að ég fer ekki ofan af því að fælingarhrif í þessum málum hafa mjög mikið að segja.

En það er líka mjög mikilvægt að við greinum á milli þess sem kallað er heilbrigt kynlíf ungs fólks, að það sé ekki allt sett undir neikvæð formerki. Við þurfum alltaf að vara okkur á því að greina þar á milli. En hv. allshn. mun fara yfir þetta.

Í dag var opnaður á vegum Barnaheilla nýr vefur. Þar er fólki sem verður vart við barnaklám á netinu gert kleift að tilkynna það með orðsendingu, þær síður verða skoðaðar og síðan kærðar. Það er eitt af því sem verið er að vinna að og er auðvitað samstarf lögreglu, dómsmrn., netfyrirtækjanna o.s.frv. Þar er því afar mikilvæg vinna að fara af stað varðandi netið og barnaklámið sem er angi af öllu þessu máli. Það er margt að gerast og ég vænti mikils af þeirri vinnu sem fram undan er og umræðum í hv. allshn.