Kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:11:11 (911)

2001-10-31 14:11:11# 127. lþ. 18.1 fundur 147. mál: #A kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svör hans og lít svo á að þessu máli sé ekki lokið. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt að hin fjárhagslega staða sjúkratrygginga ráði mestu í þessu máli. Það sem ræður mestu í þessu eru mannréttindi, þ.e. réttur sjúklinganna til þjónustu. Niðurstaða Evrópudómstólsins þýðir að stjórnvöld geta ekki neitað fólki um að fá heilbrigðisþjónustu í öðru landi innan Evrópska efnahagssvæðisins nema heilbrigðisyfirvöld geti boðið sömu eða jafngóða meðferð án ótilhlýðilegrar eða óhóflegrar biðar.

Niðurstaðan í þessu máli skiptir verulegu máli fyrir Íslendinga því að Íslendingar sem eru á biðlista eftir tiltekinni meðferð á heilbrigðisstofnunum hér í landi gætu þá að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sótt um að komast í sams konar meðferð eða aðgerð í öðrum löndum Evrópska efnahassvæðisins, t.d. á Norðurlöndum, og fengið hana greidda af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi. Er þá miðað við greiðslu sem er sambærileg við greiðslu fyrir sams konar aðgerð hér heima. Íslendingar hefðu sem sagt möguleika á að komast til heilsu fyrr en ella með því að leita út fyrir landsteinana.

Ef niðurstaðan er sú að þessi dómur eigi við Íslendinga þá þurfa heilbrigðisyfirvöld einnig að skoða kosti og galla við það að auka við meðferðarúrræði hér heima eða á hinn bóginn að senda sjúklinga utan. Það er alveg ljóst að Íslendingar vilja helst fara í aðgerð hér á landi, enda treysta þeir íslenskri heilbrigðisþjónustu best. Ég tel því að þessi úrskurður Evrópudómstólsins leggi aukna pressu og auknar skyldur á heilbrigðisyfirvöld til að skoða biðlistamál í heilbrigðisþjónustunni til hlítar. Ég tel að þessi dómur sé tímamótadómur. Það hefur lengi verið beðið eftir honum vegna þess að hann segir að það séu mannréttindi að veita tímanlega heilbrigðisþjónustu.

Ég hefði gjarnan viljað ræða þetta mál nánar en hef ekki tíma til þess.