Kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:13:29 (912)

2001-10-31 14:13:29# 127. lþ. 18.1 fundur 147. mál: #A kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir að hreyfa þessu máli sem vissulega er stórt. Það er alveg ljóst hvert mitt sjónarmið er í þessu efni sem forgangsmál og ég held að það fari saman við almennt álit þjóðarinnar, þ.e. að keppa beri að því að veita sem besta heilbrigðisþjónustu hér heima og stefna að því að vinna á biðlistum með auknum fjárveitingum þannig að hægt sé að vinna á þeim með íslenskri heilbrigðisþjónustu. Það hlýtur að vera markmið númer eitt.

Ég vil taka fram að þó að biðlistar séu auðvitað tilfinnanlegir, og ég er ekki að draga úr því, þá hafa þeir sjúklingar sem hafa verið í brýnustu þörf í ýmsum greinum komist í aðgerðir. Ég skal ekki segja um það á þessari stundu hvað dómsorðið ,,án of mikillar tafar`` innifelur. Það er túlkunaratriði sem mundi koma til mats siglinganefndar sem fer yfir þessi mál fyrir okkar hönd.

Varðandi það sem hv. 14. þm. Reykv. spurði um trúnaðarbrest á milli læknis og sjúklings, hvort það væru rök fyrir að leitað sé meðferðar erlendis, þá er það einn af þeim þáttum sem siglinganefnd mundi taka fyrir, en hún fer með þessi mál. En um þetta eru ekki nein skýr lagaákvæði. (Forseti hringir.)

Ég vil undirstrika að lokum að okkur ber að fara grannt yfir þennan dóm. En stefnan er skýr, að reyna að byggja upp sem fullkomnasta heilbrigðisþjónustu innan lands og leita þá út fyrir landsteinana með það sem ekki er heppilegt að byggja upp hér.