Áfallahjálp

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:42:04 (923)

2001-10-31 14:42:04# 127. lþ. 18.3 fundur 166. mál: #A áfallahjálp# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa verið um þetta mikilvæga mál. Ég fagna því að þetta mál er til umræðu innan þingsins og þeirri tillögu sem hefur komið fram um það. Ég tel hana vera gott innlegg í þetta mikilvæga mál.

Ég vildi fyrst aðeins bæta við um þann kostnað sem lagður er í málið nú. Í mörgum tilfellum er illmögulegt að greina hann frá öðrum kostnaði við þá þjónustu sem veitt er á spítölum og ekki er heldur gerlegt að meta umfang og kostnað við áfallahjálp sem heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæslustöðvar víðs vegar um landið sinna. Eins og ég segi er erfitt að greina hann frá öðrum kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Varðandi aðgerðir sem þarf að grípa til þá er eitt atriði mikilvægt, þ.e. að almenningur eigi kost á fræðslu um áfallahjálp þannig að fólk þekki eðlileg viðbrögð við áfalli og sé þá betur í stakk búið til að gera sér grein fyrir þörfum sínum og annarra fyrir áfallahjálp. Rannsóknaþátturinn í þessu máli er líka mikilvægur.

Ég tel, og er sammála hv. 15. þm. Reykv. um það, að nauðsynlegt sé að þeir sem vinna að þessu máli hafi sem best samstarf og samræmingu. Ég vildi leggja mitt af mörkum til þess að svo geti orðið og ég hef áhuga á því að þessi mál verði tekin sérstaklega fyrir innan ráðuneytisins. Það er mikið efni til um þetta mál, t.d. skýrslan frá 1995 sem hv. þm. (Forseti hringir.) benti á, og okkur hafa borist miklu fleiri greinargerðir um þetta. Það er því góður grundvöllur til þess að vinna í málinu. Ég fagna því að málið er einnig komið upp á Alþingi.