Ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 10:51:25 (1065)

2001-11-02 10:51:25# 127. lþ. 20.91 fundur 97#B ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[10:51]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég get ekki tjáð mig mikið efnislega um málflutning hæstv. sjútvrh. á þessum fundi í LÍÚ því að LÍÚ hefur kosið sér þann hátt, gagnstætt held ég flestum öðrum hagsmunasamtökum í landinu, að útiloka þingmenn frá því að sitja fundi sína og fylgjast þannig með því sem þar fer fram. Það er auðvitað þeirra val. Það út af fyrir sig gerir okkur dálítið fatlaða í því að fjalla um það sem þar á sér stað.

Mér finnst það hins vegar mjög sérkennilegur málatilbúnaður af hálfu forustumanna stjórnarandstöðunnar að kinoka sér við því að sæta gagnrýni frá hæstv. sjútvrh. þó að það sé ekki gert í þingsölum. Það vill þannig til að þjóðmálaumræðan í landinu fer víðar fram en í þingsölum. Hún fer fram á fundum úti í bæ og út um allt land. Hún fer fram í fjölmiðlum. Hún fer alls staðar fram. Auðvitað er það ekki alltaf svo að ávallt séu viðstaddir þeir sem um er talað hverju sinni.

Ég á t.d. von á því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson muni hafa einhverja skoðun, t.d. á starfsaðferðum og starfi ríkisstjórnarinnar. Ætlar hv. þm. þá að kalla ríkisstjórnina til svo að hún geti verið til andsvara á fundi Samfylkingarinnar og verið í andsvörum þegar að því kemur að gagnrýna hana? Auðvitað er þetta ekki þannig. Mér finnst það því undarlegt af jafnhraustum mönnum og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Össuri Skarphéðinssyni að kveinka sér undan þessu.