Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:31:35 (1083)

2001-11-02 11:31:35# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:31]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir þakklæti hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um þá opnun sem er í 4. gr. þó að hún sé nú kannski ekkert afskaplega mikil, 5% af afla í hverri veiðiferð. En þetta er svona í takt við þær hugmyndir sem ég hef haft varðandi það hvernig taka eigi á vandamálum í sambandi við brottkast.

En ég er með aðrar spurningar varðandi 3. gr.: Hvernig finna menn sjávarbyggðir sem eru að verulegu leyti háðar veiðum krókaaflamarksbáta, sérstaklega eftir sameiningu sveitarfélaga? Ætla menn að líta á Ísafjarðarkaupstað sem eina sjávarbyggð eða Flateyri sem sérstaka og Suðureyri sem aðra? Gætu sveitarfélög skipt sér upp í hverfi, Reykjavík t.d. skilgreint hafnarhverfið sem sérstaka sjávarbyggð sem er háð afla krókaaflamarksbáta?

Og hvernig reglur ætla menn að hafa handa sveitarfélögunum til að úthluta þessum verðmætum, þessum 2.300 tonnum eða 2,3 milljónum kílóa þegar þetta hefur verið gert, og hafa menn slegið á það hvers virði þessar gjafir verða?

Svo er það varðandi 7. gr. Er það rétt skilið að verið sé að úthluta nýjum kvóta í 7. gr. í keilu, löngu og karfa? Og hefur ráðuneytið lagt mat á það hvers virði þessi kvóti er sem á að fara að dreifa til útvalinna?