Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:32:43 (1097)

2001-11-02 12:32:43# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það var ákaflega skrýtið að hlusta á hv. þm. Hjálmar Árnason hérna áðan. Hann flutti fína tölu þar sem hann lýsti því að það væri ákveðin þróun í gangi og ef hún héldi áfram þá mundi smábátaútgerð leggjast niður á Íslandi. Hann lýsti því jafnframt hvað það yrði alvarlegt mál fyrir hinar dreifðu byggðir og fyrir útgerðina í heild. Hann lýsti því jafnframt hversu miklu hlutverki hann teldi að krókaflotinn hefði að gegna fyrir atvinnulíf, en ekki síst fyrir lífríki landsins. Ég er honum sammála um þetta allt.

Ég hef líka hlustað á hv. þm. lýsa hinni raunverulegu sannfæringu sinni í þessu efni. Ég heyrði það í útvarpsviðtali fyrir nokkrum vikum. Og mér fannst það ákaflega athyglisverðar skoðanir.

Ég er ekki að saka hv. þm. um að hafa fallið frá þeim skoðunum. En mér finnst það hins vegar viðurhlutamikið þegar hv. þm. kemur hingað í fyrstu umræðu áður en búið er að reyna á undirtektir manna og lýsir yfir fylgi við frv. sem gengur þvert á það sem hann hefur áður lýst sem sinni skoðun. Honum er það varla heimilt samkvæmt þeirri miklu ábyrgð sem á okkur er lögð samkvæmt stjórnarskránni um að fylgja sannfæringu okkar. Sannfæring þingmannsins er önnur.

Hann sagði hins vegar að þetta frv. væri skásti leikurinn í stöðunni. Hvaða rök eru fyrir því? Hv. þm. er annarrar skoðunar en kemur fram í frv. Það sama hefur komið fram í yfirlýsingum frá hv. þm. Gunnari Birgissyni, Kristni H. Gunnarssyni, Einari Oddi Kristjánssyni, Einari K. Guðfinnssyni á ýmsum stigum umræðunnar. Ákaflega margt bendir því til þess að fyrir hendi séu a.m.k. sterkir möguleikar á að láta á það reyna að hér sé annar meiri hluti en sá sem hv. þm. Hjálmar Árnason gengur út frá. Ég brýni það fyrir hv. þm. að hann verður að fylgja sinni sannfæringu.