Félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 18:10:12 (1251)

2001-11-06 18:10:12# 127. lþ. 22.7 fundur 23. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð. Ég vil einungis koma í ræðustól til að lýsa í fáum orðum stuðningi mínum við frv. sem ég tel afar gagnlegt. Ég vil hrósa hv. flm. fyrir þrautseigjuna og þolinmæðina að flytja þetta mál endalaust aftur og aftur. Það er ekki fagur vitnisburður sem stjórnarmeirihlutinn fær og nefndarstarfið okkar þegar upplýst er að frumvörp af þessu tagi frá þingmönnum skuli eiga jafnerfitt uppdráttar í nefndunum og skuli ekki fást afgreidd úr nefnd, því hér er ekki um svo kostnaðarsamt mál að ræða að það ætti að setja ríkissjóð á hausinn þó greiða þyrfti umönnunarbætur til þessara fáu foreldra sem hér um ræðir, en er þó það stór hópur, herra forseti, að það er skelfilegt til þess að vita að þessir foreldrar skuli þurfa að búa við það misrétti sem fjallað var um í mjög greinargóðu máli hv. flm. frv.

Átakanlegt var að hlýða á kafla úr bréfi foreldra barna sem starfa í Vímulausri æsku, sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir las úr áðan, þar sem fjallað var um fordóma í garð barna þessara foreldra, þ.e. fordóma í garð barna sem ánetjast vímuefnum. En, herra forseti, gleymum ekki að hugleiða fordómana sem ríkja í samfélaginu gagnvart foreldrum þessara barna því að það er ekki síður í garð þeirra sem fordómarnir láta á sér kræla því að þessir foreldrar liggja auðvitað undir ámæli umhverfisins fyrir að hafa ekki sinnt foreldraskyldum sínum. Þeir foreldrar liggja undir því ámæli umhverfisins að þeir hafi brugðist sem foreldrar og þessir foreldrar sitja uppi með sökina af því að börnin þeirra ánetjast vímuefnum. Það er skelfileg byrði að bera og að þessir foreldrar skuli ekki fá þann skilning sem sjálfsagður er hjá kerfinu, að þeir njóti ekki umönnunarbóta meðan verið er að leiða barnið í gegnum mjög erfiða afeitrun er þyngra en tárum taki.

Með greiðslu umönnunarbóta til foreldra sem eiga við þetta vandamál að glíma væri samfélagið að leggja þungt lóð á vogarskálarnar til þess að auka áhrifamátt þeirrar meðferðar sem börnin þurfa að gangast undir, því barn sem nýtur umönnunar foreldra sinna á meðan á erfiðri afeitrun stendur á að sjálfsögðu miklu meiri möguleika á því að hljóta bata en þau börn sem þurfa að berjast í erfiðri meðferð án þess að finna fyrir líkamlegri eða andlegri nánd foreldra sinna.

Ég vil segja það, herra forseti, að hér er um mjög þarft frv. að ræða og ég treysti því að hv. heilbr.- og trn. beri gæfu til að afgreiða málið hingað til Alþingis aftur þar sem við höfum tækifæri til að veita því áfram brautargengi og samþykkja það áður en þessu þingi lýkur.