Virðisaukaskattur á bókum

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:32:35 (1279)

2001-11-07 14:32:35# 127. lþ. 24.2 fundur 95. mál: #A virðisaukaskattur á bókum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þetta svar er mér nokkur vonbrigði. Ég skildi það eiginlega þannig að það hefði ekki einu sinni af hálfu hæstv. menntmrh. verið leitað eftir því að styrkja menningarstarfsemina að einhverju leyti með skattalegum aðgerðum. Kannski er það misskilningur og þá skýrist það betur í svari hæstv. ráðherra á eftir því mér þætti það skipta máli hver væri hugur hæstv. menntmrh. í þessum efnum. Ef hann hefði hins vegar verið ofurliði borinn og ekki náð neinu fram, þá væri það hlutur sem menn stæðu frammi fyrir og yrðu að kyngja. En hinu er erfitt að trúa að hæstv. menntmrh. sjálfur mundi ekki vilja aðhafast eitthvað í þessum efnum. Það liggur við að ég neiti að trúa því svari.

Að vísa til lækkunar skatta á hagnað fyrirtækja er dálítið langt út í sjó í þessum efnum. Mér er ekki kunnugt um að hagnaður t.d. bókaútgefenda undanfarin ár hafi veri þeim verulega til trafala og að tekjuskattsgreiðslur þeirra í ríkissjóð hafi verið umtalsverðar. Ég held að vandamálið sé þvert á móti hið gagnstæða. Fyrirtæki hafa barist í bökkum, þau hafa týnt tölunni, þau hafa verið í örvæntingarfullum sameiningartilraunum til þess að reyna að bjarga sér eins og alkunna er. Mjög margir óttast að nú sé þróttur svo dreginn úr þeirri starfsemi að þess muni fara að sjá stað í ört vaxandi mæli á næstu árum að bolmagn þeirra til myndarlegrar útgáfu á þessum sviðum minnki. Staða bókarinnar og hins ritaða máls er veik og á undir högg að sækja. Þetta er viðurkennt víða í löndunum í kringum okkur og því miður engin ástæða til að ætla að það sé öðruvísi hér á landi þó að við séum mikil bókaþjóð. Það er af þeim sökum sem t.d. Svíar hafa nýlega ákveðið að stórlækka virðisaukaskatt á bókum. Finnar og fleiri þjóðir innan Evrópusambandsins eru með bækur og aðra menningarstarfsemi í lægsta skattþrepi, lægsta viðmiðunarskattþrepi innan Evrópusambandsins 6--8% ef ég man rétt og svo mætti áfram telja. Það er því dálítið merkilegt ef ekkert er verið að huga að þeim málum hér uppi á Íslandi um þessar mundir.