Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:47:18 (1285)

2001-11-07 14:47:18# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að halda því hér til haga hversu jákvæð umræða hefur orðið um menningarmál einmitt vegna þess að ríkisstjórnin lagði til fyrir síðustu kosningar að farið yrði í uppbyggingu á menningarhúsum á landsbyggðinni til þess að efla þar menningarlíf og menningarsamstarf. Ég get sagt frá því sem ég þekki í mínu kjördæmi. Þar hefur orðið mjög jákvæð umræða um menningarmál og heimamenn hafa skoðað það hver í sínum ranni hvar þessar hugmyndir eru best komnar til þess að skila sem mestum áföngum í menningarmálum. Það að sveitarfélög á Austurlandi hafa skipt með sér verkefnum í menningarmálum er auðvitað mjög ánægjuleg þróun og sú niðurstaða sem hefur orðið af þessari umræðu.

Á ráðstefnunni um menningarlandið sem haldin var í vor um menningarmál á landsbyggðinni kom þetta einnig mjög skýrt fram og menn voru mjög ánægðir með þessa þróun.