Skimun fyrir riðu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:10:19 (1296)

2001-11-07 15:10:19# 127. lþ. 24.5 fundur 153. mál: #A skimun fyrir riðu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur kröfunni um bætt matvælaeftirlit og örugga matvælaframleiðslu vaxið mjög fiskur um hrygg um allan hinn vestræna heim og er nú svo komið að allur útflutningur matvæla, að ég tali nú ekki um það sem við viljum selja á góðu verði, verður í framtíðinni mjög háður ýmiss konar vottun. Sú tilhneiging kristallaðist mjög hér á Íslandi á sl. ári þegar eldheit umræða varð um útbreiðslu kúariðu, t.d. í Bretlandi og víðar, og vandkvæði á því að sjúkdómurinn væri greindur í gripum sem e.t.v. gengju með sjúkdóminn og smitefnið án þess að hafa veikst.

Kom þá m.a. fram í umræðunni að vísbendingar væru um að beinamjöl hefði verið flutt frá Bretlandi til Íslands svo næmi hundruðum tonna á þeim tíma þegar kúariðufaraldurinn var í hámarki á Bretlandseyjum. Erfitt mun að tryggja að ekkert af því hafi farið ofan í nautgripi eða sauðfé þó að ekki hafi verið til þess ætlast að það gengi þá leiðina. Einnig er talið að á sl. vetri hafi verið flutt inn kálfafóður af vafasömum uppruna en það hefur þó verið gefið í skyn að þar kunni að hafa verið gerð mistök í tollskráningu.

Í skýrslu sem gerð var af þeim dr. Vilhjálmi Rafnssyni og dr. Ólafi Oddgeirssyni að beiðni ríkisstjórnar Íslands, og var hún lögð fram í mars sl., er talið hugsanlegt að sauðfé og nautgripir gætu hafa smitast hér á landi ef ekki hefur verið viðhöfð nægileg aðgát við fóðurgjöf en hafi þó ekki veikst enn vegna langs meðgöngutíma. Þess vegna tel ég rétt að viðhafa hér á landi þær varúðarráðstafanir við slátrun sem tíðkast hjá öðrum þjóðum á Evrópska efnahagssvæðinu svo að það komi ekki til með að hamla sölu afurða okkar í framtíðinni að við getum ekki framvísað öruggum vottorðum.

Endanleg greining á kúariðu fæst aðeins með ónæmisvefjaprófum á heilavef slátraðra dýra. Skýrsluhöfundar leggja því til að við hefjum hér á landi skimun fyrir kúariðu hjá nautgripum og sauðfé, svo og flokkun sláturafurða eins og tíðkast á Evrópska efnahagssvæðinu.

Því spyr ég: Hefur það verið ákveðið í hæstv. ríkisstjórn að hefja skimun fyrir kúariðu hér á landi, og þá hvenær?