Starfssvæði og verkefni hjá Suðurlandsskógum

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:23:46 (1301)

2001-11-07 15:23:46# 127. lþ. 24.6 fundur 187. mál: #A starfssvæði og verkefni hjá Suðurlandsskógum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. tók þá ákvörðun á síðasta þingi að leggja fram tillögu hér til að víkka út skógræktarsvæði Suðurlandsskóga í báðar áttir, þ.e. til Skaftafellssýslna í austur og Gullbringusýslu í vestur, eða um Suðurnesin.

Eftir því sem mér hefur skilist hefur eitthvað verið litið á verkefni í Skaftafellssýslum eftir að þessi ákvörðun var tekin, en ekkert á Suðurnesin eða Gullbringusýslu. Eins og ráðherrann útskýrði málið fyrir mér á sínum tíma átti þessi tillaga hans að verða til þess að liðka fyrir skógræktaráformum á Suðurnesjum og í Skaftafellssýslum og því ekki ástæða til þess að vera með sérstakt verkefni um Suðurnesin eins og ég og fleiri höfðu verið með áform um, heldur rúmuðust þau innan Suðurlandsskógaverkefnisins.

Nú hafa fjárlög verið lögð fram vegna næsta árs og þar bólar ekki á fjármunum til þess að auka við verkefni landshlutabundinna skógræktarverkefna, ekki krónu að því leyti. Það væri sorglegt, herra forseti, ef það hefur verið tilgangur hæstv. landbrh. að drepa þær tillögur sem voru í gangi um skógræktarverkefni á Suðurnesjum og í Skaftafellssýslum. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir, herra forseti.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á Suðurnesjum eru mjög miklir möguleikar til skógræktar. Við landnám var það svæði til að mynda allt skógi vaxið frá ystu nesjum og upp til fjalla. Jarðvísindamenn telja að 95% af þeim skógum sem þá voru til hafi horfið af ýmsum ástæðum, en þó mest vegna tilverknaðar mannsins. Auðvitað er það alls ekki það eina sem hefur áhrif á slíkt. Suðurnesin eru sérstaklega viðkvæmt svæði, mjög eldvirkt, en á árhundruðunum eftir landnám, t.d. 1152 í svonefndum Krýsuvíkureldum, loguðu eldar um öll Suðurnes og mikil hraun runnu þá til sjávar, bæði við Krýsuvík og eins við Hafnarfjörð. Í eldum 1220--1230 voru mjög miklir eldar út af Reykjanesi sem lögðu ösku yfir öll Suðurnesin og eyddu skógunum mjög mikið á þeim árum vegna þess hversu sárir þeir voru orðnir eftir beit og skógarhögg.

Ljóst er að við skuldum börnunum okkar það að gera verulegt átak í að lyfta upp skógrækt á þessum svæðum og það var tilgangur okkar flutningsmanna að tillögu um Suðurnesjaskóga á sínum tíma. Nú bið ég hæstv. ráðherra að svara því hvernig þetta er fyrirhugað með þeim fyrirspurnum sem hér liggja fyrir.