Reglugerð skv. 18. gr. a læknalaga

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 16:03:25 (1318)

2001-11-07 16:03:25# 127. lþ. 24.8 fundur 231. mál: #A reglugerð skv. 18. gr. a læknalaga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingvarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu atriði. Ég vil vekja athygli á öðrum þætti sem er að fyrir skömmu settum við lög um sjúklingatryggingu á þinginu. Í ljósi þess er mjög mikilvægt að þessi mál séu í góðum, skýrum og öruggum farvegi. Lögin um sjúklingatryggingu voru sett til að auðvelda sjúklingum að sækja rétt sinn ef um meint mistök er að ræða í heilbrigðiskerfinu og að sjúklingurinn, eða aðstandendur ef um dauðsföll er að ræða vegna mistaka eða meintra mistaka, geti sótt bótakröfur auðveldlega. Þá þurfa upplýsingar eins og þær sem farið er fram á í 18. gr. læknalaganna að liggja fyrir. Það er auðvitað alvarlegt mál ef svona mistök eru aðeins yfirleitt skráð, ekki alltaf. Það verður auðvitað að sjá til þess að reglur séu svo skýrar að þau séu ávallt skráð, hvort sem það eru lyfjamistök eða önnur mistök sem heilbrigðisstéttum verður á.