Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 10:50:05 (1334)

2001-11-08 10:50:05# 127. lþ. 25.1 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem er 230. mál þingsins á þskj. 256.

Á árinu 1999 voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í lögunum var gjaldi sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til að standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins breytt á þann veg að tryggt væri að gjaldið uppfyllti skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þetta þýddi m.a. að festa þurfti álagningarhlutfall í lögum í stað þess að kveða einungis á um hámark álagningar. Þessum álagningarhlutföllum þarf að breyta á hverju haustþingi enda ógerlegt að ákveða nákvæm hlutföll álagningar á flokka eftirlitsskyldra aðila til lengri tíma en eins árs í senn.

Frv. þetta er flutt í því skyni að breyta álagningarhlutföllum 5. gr. laganna. Í rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins er gert ráð fyrir að kostnaður við rekstur á árinu 2002 verði um 264 millj. kr. sem er veruleg hækkun frá rekstrarkostnaði þessa árs. Hækkunin kemur til af auknum kröfum til Fjármálaeftirlitsins í lögum og auknum umsvifum á fjármálamarkaði. Áætlað er að reksturinn verði fjármagnaður með 215 millj. kr. eftirlitsgjaldi, u.þ.b. 45 millj. kr. rekstrarafgangi frá fyrri árum og tæplega 4 millj. kr. öðrum tekjum.

Breytingar sem lagðar eru til með frv. þessu eru nánar tiltekið þessar:

1. Álagningarhlutfall lánastofnana, vátryggingafélaga, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og húsbréfadeildar Íbúðalánasjóðs er lækkað lítillega en lágmarksgjald hækkað. Hlutfallslegt vægi flokka eftirlitsskyldra aðila er í meginatriðum óbreytt.

2. Lágmarksgjald vegna innlánsdeilda samvinnufélaga er hækkað úr 150 þús. kr. í 250 þús. kr. Kemur þetta til vegna nýlegra laga um samvinnufélög sem styrkja eftirlit Fjármálaeftirlitsins með innlánsdeildunum.

3. Engin álagning er á Kvótaþing enda var það lagt niður á þessu ári.

4. Bætt er við fastagjaldi á öryggissjóði samkvæmt lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Einn öryggissjóður er starfandi í dag, Tryggingarsjóður sparisjóða.

5. Eftirlitsskyldir aðilar sem eru dótturfyrirtæki annarra eftirlitsskyldra aðila að minnsta kosti að 9/10 hlutum skulu greiða 2/3 hluta eftirlitsgjalds samkvæmt viðeigandi tölul. 1. mgr. hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Með þessu er komið til móts við sjónarmið sem fram koma í áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila að um ,,tvísköttun`` geti verið að ræða þegar eftirlitsgjald er innheimt af dótturfélögum, einkum þegar dótturfélagið er að mestu fjármagnað af móðurfélaginu.

Herra forseti. Í fskj. V með frv. er að finna skýrslu Fjármálaeftirlitsins til viðskrh. um starfsemi eftirlitsins. Í 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er kveðið á um að ráðherra skuli leggja slíka skýrslu fyrir Alþingi. Í skýrslunni er fjallað um eftirlit með einstökum sviðum fjármálamarkaðar, þar á meðal lánamarkaðar, verðbréfamarkaðar, vátryggingamarkaðar og lífeyrismarkaðar. Þá er greint frá þróun og horfum á íslenskum fjármálamarkaði og áherslum í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missiri.

Í skýrslunni er einnig umfjöllun um athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu. Meginniðurstöður sjóðsins eru þær að Fjármálaeftirlitið hér á landi sé í góðri stöðu til að takast á við verkefni sitt. Hins vegar var það einnig mat sjóðsins að í íslensku fjármálakerfi væru veikleikar sem stefnt gætu stöðugleika þess í hættu. Sjóðurinn gerði athugasemdir og benti á ýmislegt sem betur mætti fara og stuðla mundi að frekara öryggi, bæði að því er varðar löggjöf og opinbert eftirlit.

Herra forseti. Ég mæli með því að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og hv. efh.- og viðskn.