Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 12:59:53 (1350)

2001-11-08 12:59:53# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[12:59]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er búin að átta mig á því núna eftir þessa ræðu hv. þm. að hér er ekkert vandamál. Við erum bara nákvæmlega sammála.

Hún segist ekki vera að tala um það að fá nýtt fyrir gamalt. Það er mikilvægt að hafa það á hreinu. Hún talar um að það eigi að fá sambærilegt fyrir það sem glatast. Lögin kveða einmitt á um það. Það er verið að tala um að afskrifa þannig að nákvæmlega það sem glatast verði bætt. Hvert er þá vandamálið?

Ég sagði fyrr í dag að þessar afskriftir sem nú er nákvæmlega kveðið á um í lögum hafa verið viðhafðar þegar til þess hefur komið að þurft hefur að bæta tjón vegna elds. Munurinn er fyrst og fremst sá að núna þarf fólkið ekki að greiða iðgjöld nema af þeirri upphæð sem það á einhverja möguleika á að fá greidda verði tjón. Ég óttast hins vegar að áður hafi fólk verið að greiða iðgjöld af hærri upphæðum en það nokkurn tíma átti möguleika á að fá vegna tjóns.

Ég held bara að miðað við þessa síðustu ræðu hv. þm. þá sé bókstaflega ekkert vandamál uppi.

Ég ítreka að fólki ber skylda að tilkynna breytingar á húsum sínum. Margir höfðu ekki gert sér grein fyrir því og þess vegna var matið sem upphaflega birtist eftir breytinguna í mörgum tilfellum fjari lagi. Það var vegna þess að fólkið hafði ekki áttað sig á þessum skyldum.