Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 14:32:54 (1367)

2001-11-08 14:32:54# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mál, um breytingu á lögum um brunatryggingar, sérstaklega meðflutningsmönnum mínum sem hafa flutt mjög rökfastar ræður um hve nauðsynlegt er að gerð verði leiðrétting á þeim mistökum sem sannarlega voru gerð í þingsölum á árinu 1999. Viðbrögð stjórnarliða í þessu máli hafa vissulega valdið mér nokkrum vonbrigðum, einkum hæstv. viðskrh. sem hefur það kannski nokkuð í hendi sér að snúið verði á réttan veg með þetta mál. Taldi ég satt að segja áður en þessi umræða byrjaði að hún mundi opna eitthvað fyrir það að rétta út hönd til sátta í þessu máli þannig að efh.- og viðskn. gæti skoðað málið út frá því réttlætissjónarmiði sem t.d. hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson talaði vel fyrir áðan. Við erum oft og tíðum að fjalla um aleigu fólks sem lendir í því að missa heimili sitt í bruna. Við erum að fjalla um þá eðlilegu og sanngjörnu kröfu í vátryggingarétti að fólk verði jafnsett eftir brunann og fyrir hann. Út á það gengur frv.

Við höfum líka opnað fyrir aðra leið í frv. til þess að skoða í efh.- og viðskn., ef hún mætti verða til sátta, sem ég lýsti ásamt meðflutningsmanni mínum Guðjóni A. Kristjánssyni. En mér finnst stjórnarliðar ansi fastir í því að þetta sé bara allt í hinu besta horfi.

Það er auðvitað ekkert skrýtið að fólk, ef það á eign sem allt í einu hrynur í brunabótamati um 50%, eigi erfitt með að sætta sig við það og geti verið fjárhagslega tryggt með hana ef hún lendir í brunatjóni. Við getum tekið dæmi um eign sem hefur kannski verið metin í brunabótamati á t.d. 12 millj. og mundi seljast á markaðsverði á slíku verði, 12--13 millj. Hún lækkar kannski um 50% í brunabótamati sem dæmi er um. Og hvað mundi viðkomandi þá fá ef brunabótamatið væri 50% lægra en verðið á eigninni? Hann mundi fá 6 millj. sem nemur verði í Reykjavík á tveggja herbergja íbúð, en átti kannski fjögurra herbergja íbúð fyrir. Mér finnst þetta sýna alveg í hnotskurn að það er ekkert sérkennilegt við að fólk sé óöruggt eftir þessa lagasetningu og þá niðurstöðu sem hún hefur leitt af sér.

Það er alveg ljóst hvað hér er á ferðinni. Það þarf ekki annað en vitna til orða tryggingafélaganna sem segja berum orðum, með leyfi forseta, og er ég hér að vitna í Morgunblaðið:

,,Samkvæmt upplýsingum forsvarsmanna tryggingafélaga getur matið, sem félögin leggja til grundvallar við tryggingar, leitt til þess að fólk fái minni bætur en sem nemur virði viðkomandi eignar.``

Ekki núvirði heldur virði viðkomandi eignar. Ég óttast því að ef það verður látið líðast sem ég held að gangi ekki upp samkvæmt vátryggingarétti, að verið sé að opna á viðbótartryggingar eins og tryggingafélögin hafa látið liggja að, þá gæti það leitt til þess að við værum kannski smám saman að hverfa frá hinni lögboðnu skyldutryggingu sem ég held að allir vilji viðhafa. Þá væru til tvenns lags brunatryggingar í landinu, annars vegar hinar lögboðnu og hins vegar einhverjar viðbótartryggingar sem fólk gæti keypt sér. Þetta var í góðu horfi fyrir 1999 og ég skil ekki af hverju menn geta ekki, fyrst hér hafa orðið mistök á í meðferð Alþingis, leiðrétt þau mistök.

Herra forseti. Mér finnst reyndar að hæstv. félmrh. Páll Pétursson sé sá eini í stjórnarliðinu sem hefur talað af einhverri skynsemi um þetta mál og vitna ég þá til þess sem fram kom í Fréttablaðinu í septembermánuði. Þar var viðtal við hæstv. ráðherra þar sem sagði: ,,Fyrning eigna óeðlilega há.`` Þar kemur fram að hæstv. ráðherra segir fyrningarákvæði í lögunum vera of strangt að því leyti að komið hafi í ljós að niðurskrift eigna sé óeðlilega há og hæstv. ráðherra segir að nauðsynlegt sé að brunabótamat endurspegli sannvirði eignarinnar.

Ég fæ ekki skilið annað af orðum hæstv. ráðherra en hann skilji þau sjónarmið sem við erum að leggja til grundvallar sem tölum fyrir breytingu á því í þessu frv. þó að ég geri mér ekki alveg ljóst hvort hæstv. ráðherra vilji fara nákvæmlega sömu leið. En ráðherrann gerir sér greinilega ljóst að verið er að ganga allt of langt í afskriftum eigna. Ég geri ráð fyrir að ráðherrann sé þá að tala út frá sjónarmiðum um brunatryggingar. Síðan er auðvitað önnur hlið á málinu sem snýr náttúrlega að málaflokki ráðherrans, húsnæðismálunum, þ.e. að miða veðhæfni eigna við brunabótamat sem er náttúrlega algerlega út úr kortinu, ekki síst eftir þessa breytingu og hef ég ásamt öðrum þingmönnum lagt fram frv. um það. Það bíður síns tíma að ræða afleiðingar þess ef fram heldur sem horfir að slík viðmiðun verði við lýði áfram.

Fróðlegt væri, herra forseti, að heyra í hæstv. ráðherra Páli Péturssyni varðandi þetta mat á afskriftunum og fyrningu eigna vegna þess að ég tel að það sé deginum ljósara að fólk er ekki jafnsett eftir breytinguna sem gerð var 1999 og það var fyrir þá breytingu. Við erum, herra forseti, að fjalla um aleigu fólks í því tilviki að um brunatjón verði að ræða og við verðum að horfa á málið í því ljósi. Ég vil, herra forseti, leyfa mér að halda a.m.k. í vonina um að þegar við förum að fjalla um málið í efh.- og viðskn. geti náðst víðtæk samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að leiðrétta þau mistök sem voru gerð 1999.