Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 15:58:14 (1380)

2001-11-08 15:58:14# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að ágreiningurinn í þessu máli sé ekki óyfirstíganlegur. En til mín var beint nokkrum spurningum til viðbótar.

Í fyrsta lagi var spurt hvað skýrði mismuninn á verði heyrnartækja? Ég hef ekki tæmandi svör við því á reiðum höndum. Heyrnartæki eru mjög misjafnlega tæknilega útbúin og eins og kom fram er innifalin þjónusta hjá einkaaðilaum. Hins vegar er þetta atriði sem skoða mætti betur við vinnslu málsins. Ég bendi á þær hugmyndir sem eru settar fram í frv. um greiðsluþátttöku. Gert er ráð fyrir því að tækin séu keypt á sambærilegu verði. Ég held að það sé ekki mögulegt að hafa það öðruvísi. Það hefur ekki verið breytt um stefnu í því máli.

Varðandi umsagnir aðila um frv. á undirbúningsstigi þá er það alveg ljóst að hagsmunaaðilar leggja áherslu á 2--3 atriði. Það er í fyrsta lagi að biðlistarnir séu styttir, það er náttúrlega númer eitt varðandi þetta. Það er ekki nóg að fá heyrnartæki heldur þarf flókinn undirbúning varðandi þetta og flókna þjónustu, forvarnir og heyrnarmælingar í þurfa jafnframt að vera í lagi.

[16:00]

Varðandi kostnaðarumsögnina, sem mönnum er hér tíðrætt um, þá get ég sagt að auðvitað setur það mark sitt á alla þessa umfjöllun að málefni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar eru í gagngerðri endurskoðun eins og hv. þingmenn hafa réttilega komið inn á. Ég fagna því að þeir hafa kynnt sér starfsemi stöðvarinnar og hvar skórinn kreppir. Þessi mál eru í gagngerðri endurskoðun og það hlýtur að setja sitt mark og leiða okkur nær viðunandi niðurstöðu varðandi fjárþörfina. Ég hef verið í viðræðum og fylgst grannt með þróuninni hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og ég fullvissa hv. þingmenn um að þar er unnið mjög gott verk í endurskipulagningu. En það setur okkur, eins og ég segi, í nokkurn vanda að meta fjárþörfina endanlega. Það er alveg ljóst að stytting biðlista kostar fjármuni, enda er það tekið fram í svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanna.

Ég get ekki á þessu stigi sagt hverju endurskipulagning starfseminnar skilar en það er ljóst að í frv. er ætlast til að á stofnuninni sé veitt þjónusta. Það kostar vissulega fjármuni en við verðum að fara yfir þetta mál í ljósi þeirrar niðurstöðu sem verður af endurskipulagningu starfseminnar.

Þjónusta við landsbyggðina er eitt af þeim hlutverkum stöðvarinnar sem æskilegt væri að hún sinnti í ríkari mæli en gert hefur verið, ég tek undir það. Ég efast ekki um það að það verði skoðað í heilbr.- og trn., með hvaða hætti það verði tryggt. Ég efast ekki um að nefndin muni kalla í þá aðila sem þarna eiga hlut að máli, hvort sem það eru hagsmunaaðilar eða aðrir. Ég treysti því að vel verði unnið að þessu máli þar.