Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:55:34 (1427)

2001-11-12 15:55:34# 127. lþ. 26.91 fundur 117#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er óheiðarlegt, þetta gamla --- láttu það svona í veðrinu vaka / að þú vitir að hann hafi unnið til saka. Þetta er aðferð ómerkilegra stjórnmálamanna. Þess vegna er það nú svo að þetta er allt saman opinbert mál.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem jafnan vill sparka í kálfann á félögum sínum spurði þessarar spurningar: Hverjum voru ríkiseignir seldar og hvert var andvirðið? Ég sagðist vera með þetta gagn hér sem ég yrði að styðjast við. Það væru úrskurðir tveir sem snúa að þessu máli. Þar stendur í úrskurðinum, með leyfi forseta:

,,Hin kærða ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins þess efnis að synja kærendum um aðgang að skjölum varðandi kaup ríkisins á fasteignum á tilteknum sjö ríkisjörðum á árunum 1986--1990 er staðfest.``

Þetta er úrskurður upplýsinganefndar sem landbrn. og sá er hér stendur telur sig þurfa að fara eftir. Hitt er hárrétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að hér er eitthvað misvísandi á ferðinni og því verður að fara yfir það hvers vegna ríkisbókhald birtir sölu jarðanna og verðið sem aðrir, þar á meðal upplýsinganefnd, segja að sé ekki heimilt þegar kemur að ráðuneytinu. Yfir það verð ég að fara og um það skulda ég þinginu svör. Ég viðurkenni það en það er ekki af því að ég vilji hafa rangt við.

Svo vil ég segja um hinn ómerkilega málflutning hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að þegar ríkisjarðir eru seldar er oft aðeins verið að selja landið. Ríkiskaup hafa, eins og ég hef sagt hér, metið það hlutlaust allan þann tíma sem ég hef verið ráðherra, í flestum tilfellum, að samkvæmt 38. gr. jarðalaganna eru það ábúendurnir sem eiga öll mannvirkin. Þau eru undanskilin, þau eru eign fólksins sem jörðina situr. Þannig hefur sú aðferð verið notuð að Ríkiskaup hafa farið yfir málið. Ég tel að mér beri skylda, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði hér, að fara yfir þessi mál aftur. Hvers vegna stend ég frammi fyrir skýrslu þar sem sagt er að þessar upplýsingar megi ekki birta hér en síðan eru þær samkvæmt ríkisbókhaldi í ríkisreikningi? Þessar upplýsingar skulda ég því að ég hef engu að leyna og hef engan áhuga sjálfur á að fela fyrir þinginu eitt eða neitt. En jarðirnar eru ekki mitt mál. Ég hef sem ráðherra borið ábyrgð á sölu ríkiseigna eða fasteigna og hefur verið unnið samkvæmt mjög fastmótuðum reglum.