Óhefðbundnar lækningar

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 18:42:41 (1453)

2001-11-12 18:42:41# 127. lþ. 26.18 fundur 33. mál: #A óhefðbundnar lækningar# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki neinu sérstöku að bæta við mál hv. 1. flm. þessarar tillögu. Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir fylgdi henni úr hlaði á greinargóðan hátt en eins og fram kom í máli hennar er ég einn af meðflutningsmönnum hennar.

Ég vil einungis ítreka fyrir þingheimi að það er afar mikilvægt að tillaga á borð við þessa skili sér aftur inn í þingið. Hér erum við að tala um heim sem er til staðar á Íslandi í dag en við vitum ekkert hvernig hann lítur út, við höfum enga þekkingu á umfangi hans. Það er satt að segja þannig, herra forseti, að það er eins og hér sé um að ræða eitt af óhreinu börnunum hennar Evu. Við vitum öll að það er til en það er hulið sjónum okkar.

Það er á ábyrgð Alþingis að könnun og úttekt af því tagi sem getið er um í þessari þáltill. fari fram. Það er mjög þýðingarmikið. Það skyldi þó ekki vera, herra forseti, að þegar þessi heimur er kortlagður orðinn og við sjáum hvert umfang hans er og hvers hann er megnugur þá kunni að fara svo að við fáum öflugan liðsmann við heilbrigðisþjónustuna sem rekin er af hinu opinbera. Það vita allir sem vilja vita að t.d. bara einföld aðferð eins og nudd hefur mikinn lækningarmátt. Þær heilbrigðisstéttir sem starfa í dag stunda margar hverjar nudd til hliðar við sína almennu hefðbundnu starfsemi. Ég vil nefna hjúkrunarfræðinga sem gjarnan leggja sjúklingum sínum lið með einhverju sem gæti flokkast undir þennan heim, heim hinna óhefðbundnu lækninga. Það hefur sýnt sig að hér er um öflugar aðferðir að ræða.

[18:45]

Af því að hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir gat sérstaklega um Bandaríkin og hversu langt þessi mál hafa náð þar, þá má bæta því við að í Bretlandi hafa nálastungulækningar og osteópatía hlotið viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda. Um þessar tvær aðferðir gilda ákveðnar reglur og eru gerðar ákveðnar menntunarkröfur. Eftir því sem ég hef frétt þá munu höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnarar vera á leiðinni inn í kerfið hjá Bretum. Smám saman eru Bretar, nágrannaland okkar og þjóð sem við gjarnan miðum okkur við, að taka þetta inn í sitt heilbrigðiskerfi og í öllu falli er heimur óhefðbundinna lækninga þar afar sýnilegur og öllum kunnur.

Könnun af því tagi sem tillagan hljóðar upp á að fari fram yrði fyrsta skrefið til að kortleggja þennan heim hér á Íslandi, gera hann sýnilegan og í framhaldi af því gætum við séð hvers hann verður megnugur til þess að efla heilsu Íslendinga.