Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 18:47:26 (1455)

2001-11-12 18:47:26# 127. lþ. 26.17 fundur 26. mál: #A fjárreiður ríkisins# (fjáraukalög) frv., Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.

1. gr. hljóðar svo:

,,Við 43. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þegar svo ber undir skal fjármálaráðherra leggja slíkt frumvarp fyrir Alþingi bæði þegar er það kemur saman að hausti og áður en því er slitið að vori.``

Herra forseti. Þetta frv. lýtur að því að breyta lögum um fjárreiður ríkisins en þar segir einmitt í ákvæðum um fjáraukalög:

,,Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.``

Meginákvæði laganna hvað þetta varðar kveða á um að heimilda til slíkra útgjalda skuli leitað fyrir fram, þ.e. áður en skuldbindandi ákvörðun er tekin nema í undantekningartilvikum.

Hvergi í lögunum er kveðið á um hversu oft eða hvenær skuli leggja fram frumvarp til fjáraukalaga. Þó segir í 44. gr. að heimilda fyrir ófyrirséðum fjárráðstöfunum sem grípa þurfi til eftir samþykkt fjáraukalaga skuli leitað í lokafjárlögum. Það gæti vísað til þess að fjáraukalög skuli aðeins vera ein á árinu, enda virðist sú hefð hafa mótast að frumvarp til fjáraukalaga sé lagt fram einu sinni á ári, þ.e. að hausti, og taki til fjárráðstafana sem nauðsynlegt hefur þótt að grípa til án þess að heimild hafi verið fyrir þeim á fjárlögum. Fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár hafa svo verið afgreidd og samþykkt frá Alþingi í desember eða um líkt leyti og fjárlög næsta árs.

Það vinnulag að stofna til útgjalda fyrst og leita svo heimilda eftir á er ekki í anda laga um fjárreiður ríkisins. Frumvarp þetta miðar að því að frumvarp til fjáraukalaga verði lagt fyrir Alþingi tvisvar á ári ef þörf krefur, að vori áður en þingi er slitið og svo aftur að hausti í upphafi þings.

Það er svo, herra forseti, að frá áramótum eða frá því að fjárlög eru samþykkt í desember fyrir næsta ár og til vors geta aðstæður breyst þannig að forsendur verði fyrir breytingar á útgjöldum ríkisins. Einnig getur tekjuáætlunin breyst í grundvallaratriðum. Ný lög sem hafa í för með sér fjárútlát geta hafa verið samþykkt á Alþingi á vorþingi eða aðrar ástæður verið fyrir breytingum á fjárheimildum sem krefjast afgreiðslu þingsins. Það er því nauðsynlegt, herra forseti, að Alþingi hafi innbyggða starfsreglu sem tryggi að löggjafarsamkoman geti komið að og stýrt með eðlilegum hætti fjárlögum og framkvæmd fjárlaga og gripið inn í ef nauðsyn er að breyta til frá þeim fjárlögum sem hafa verið samþykkt með hefðbundnum hætti. Með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til er tryggð nauðsynleg ábyrgð og aðkoma að fjármálum ríkisins.

Herra forseti. Það hefur verið í umræðunni að bæði einstök ráðuneyti og stofnanir hafi farið fram úr þeim fjárheimildum sem fjárlög hafa kveðið á um. Umræðan hefur snúist um hvernig með skuli fara, hvort beita skuli viðurlögum, refsingum eða starfssviptingum. Þessar leiðir hafa m.a. verið nefndar í sölum Alþingis í tengslum við þá umræðu. Einnig er það svo að frv. til fjáraukalaga sem hafa verið lögð fyrir þingið á haustin og síðan samþykkt sem lög frá Alþingi skömmu fyrir jól, hafa yfirleitt að bera tillögur eða beiðnir um auknar fjárheimildir á yfirstandandi ári, sem framkvæmdarvaldið, þ.e. einstakir ráðherrar eða ráðuneyti, hafa þegar tekið ákvörðun um og hafa jafnvel þegar innt af hendi þannig að í allt of mörgum tilvikum er aðeins formsatriði af hálfu Alþingis að staðfesta gerðan hlut. Þetta ástand er alger óþarfi og með því er farið á svig við lögin. Frv. sem hér er lagt fram er ætlað að koma í veg fyrir þetta.

Það er ósköp eðlilegt að aðstæður geti breyst frá því um áramót og til næsta vors eða næsta hausts varðandi útgjöld einstakra liða. En þá á að taka á því máli fyrir fram. Alþingi á að gera það á grundvelli þeirra upplýsinga sem það fær um nauðsyn og þörf á breytingum.

Með þessu frv. til breytinga á lögum um fjárreiður ríkisins er einmitt hvatt til þess að fjárln. Alþingis, sem nú starfar einungis í megindráttum á haustmánuðum, starfi með reglubundnum hætti allt árið og vinni jafnframt að undirbúningi fjáraukalaga að vori og þau fjáraukalög verði það síðasta sem Alþingi gangi frá og samþykki áður en það fer í sumarleyfi. Ef þörf væri á kæmi síðan nýtt frv. til fjáraukalaga á fyrstu dögum þings að hausti.

Herra forseti. Ég tel afar brýnt að þessi breyting á lögum sem hér er lögð til nái fram að ganga. Hún mun styrkja þingræðið. Hún mun leiða til meiri festu í fjármálum ríkisins og hún mun einnig leiða til þess að umræðan á þingi snúist ekki um hvernig eigi að refsa ráðherrum, ríkisstjórn eða einstökum forstöðumönnum í ráðuneytum eða stofnunum fyrir að hafa af einhverjum ástæðum talið sig nauðbeygða eða talið brýna nauðsyn á að fara fram úr fjárheimildum, heldur væri þingið búið að afgreiða þær beiðnir fyrir fram eftir sínum vilja þannig að geðþóttaákvarðanir framkvæmdarvaldsins mundu ekki ráða ferðinni.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að frv. fari til meðferðar efh.- og viðskn. Ég vona að það fái þar vandaða og góða umfjöllun og geti komið aftur fyrir þingið og fengið hér jákvæða afgreiðslu þannig að umræða um ríkisfjármálin verði skynsamlegri en verið hefur á síðustu missirum.