Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 13:50:29 (1466)

2001-11-13 13:50:29# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þegar við ræddum frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga fyrir nokkrum dögum bar þessi mál á góma og ég nefndi m.a. það sem að mínu áliti væru ákveðnir veikleikar í því frv. og vörðuðu ekki síst réttarstöðu og réttindi erlendra starfsmanna, þar með talið t.d. réttindi þeirra til upplýsinga um kjarasamninga og um réttarstöðu sína að öðru leyti. Og þó að það sé góðra gjalda vert að í lögunum eða frv. séu ákvæði um rétt hinna erlendu starfsmanna til upplýsinga um hvar þeir geti aflað sér fræðslu í íslensku, þá tel ég að þarna þurfi að gera betur. Nú vill svo vel til að hv. félmn. er að hefja vinnu að frv. og hlýtur að taka slíka hluti til skoðunar.

Ég held að mjög mikilvægt sé að tryggja betur en nú er hvernig eftirliti verði við komið og aðkomu stéttarfélaga, Vinnueftirlits og slíkra aðila gagnvart stöðu erlendra starfsmanna, bæði hvað varðar ráðningarskilmála þeirra, aðbúnað og annað og svo auðvitað ekki síst að tilskilin leyfi séu fyrir hendi. Það dugar náttúrlega lítt að setja upp eftirlit ef ekki er tryggt að menn séu í landinu á löglegum forsendum og hafi tilskilin leyfi.

Hins vegar er alveg ljóst, herra forseti, og ætti ekki að koma neinum manni á óvart að það munu verða uppi tilraunir til svartrar atvinnustarfsemi af þessum toga. Við Íslendingar munum örugglega ekki, komast undan því frekar en aðrar þjóðir að glíma við slíka hluti. Það hafa menn lengi gert á hinum alþjóðlega kaupskipaflota og ljóst er að í hópi farandverkamanna erlendra sem hér starfa mun slíkt láta á sér kræla líka. Þessir tímar eru einfaldlega farnir að knýja dyra, herra forseti, og við verðum að horfast í augu við það. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum málum frekar en öðrum. Við getum ekki vænst þess að njóta góðs af erlendu vinnuafli hér, þegar við þurfum á því að halda, án þess að axla um leið þær skyldur sem veru þess í landinu eru samfara.