Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 13:55:04 (1468)

2001-11-13 13:55:04# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Fyrir skömmu ræddum við frv. um atvinnuréttindi útlendinga. Í þeirri umræðu vék ég einmitt að málum sem gætu komið upp með þessum hætti, sérstaklega hvað það varðaði að ekki væri næg upplýsingaskylda til erlendra starfsmanna.

Málið sem hér er til umræðu er hins vegar þannig vaxið að þeir erlendu starfsmenn sem um ræðir eru alls ekki með atvinnuleyfi og þess vegna ekki auðvelt í að komast að veita þeim þær upplýsingar sem ég ræddi um í sambandi við frv. um atvinnuréttindi útlendinga. Þetta sýnir okkur vissulega að það sem vakin var athygli á í umræðunni að gæti átt sér stað, hefur komið upp. Og þó að ég taki undir það að langflestir atvinnurekendur hér á landi standi vel og eðlilega að málum varðandi erlent vinnuafl, þá erum við að upplifa hluti sem eru í þá veru að útlendingar starfa hér án atvinnuleyfa og eru hér í umboði ákveðinna fyrirtækja sem leigja þá út og taka sjálfsagt til sín stóran hluta þeirra lögmætu launa sem þeir ella ættu að fá.

Það liggur því fyrir að stjórnvöld verða á einhvern hátt að efla eftirlit með því að reglum sé fylgt og ég hygg að það verði best gert með því að tekið verði upp virkara samstarf við verkalýðsfélögin og að mönnum verði gert skylt að hafa þau atvinnuleyfi sem þeir hafa undir höndum með sér á vinnustað. Það verður að vera hægt að ganga á vinnustaðina og fylgjast með því hvort fólk hefur atvinnuleyfi. Öðruvísi verður ekki hægt að taka á ólöglegu vinnuafli. Það sést ekki utan á fólkinu.