Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 14:08:31 (1474)

2001-11-13 14:08:31# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), Flm. GÖ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka afar málefnalega og skýra umræðu sem hefur farið fram. Mér finnst það greinilegt á öllum sem hér hafa talað að þeir skynja þann þunga og þann alvarleika sem er í þessum málum. Mér fannst mjög ánægjulegt þegar hæstv. félmrh. staðfesti að hér er um sama fyrirtæki að ræða og það sem ég gerði að umtalsefni varðandi Gufunesið, og það er afar mikilvægt að uppræta slíkt.

Í því frv. sem er núna til umfjöllunar í hv. félmn. eru ákveðin nýmæli þar sem mælst er til þess að tillit sé tekið til sérstakra aðstæðna hjá útlendingum. Núna er ég að velta fyrir mér orðum hæstv. félmrh. um að það sé auðvitað útlendingaeftirlitið sem sjái um að vísa fólki úr landi þegar svona lagað kemur upp á. Ég veit hins vegar að í þessu tilfelli er ekki búið að vísa fólkinu úr landi. Og mér finnst afar mikilvægt að á þeim málum sé einmitt tekið, fólkinu verði ekki vísað burt heldur gengið frá nauðsynlegum leyfum. Fólkið á ekki að þurfa að fara heim með skottið á milli lappanna, lenda í vondum málum og eiga kannski ekki afturkvæmt hingað. Þvert á móti þarf að kanna hvort það mundi vilja vinna hér áfram og þá á ábyrgð fyrirtækja sem mundu fara að lögum.

Umræðan snýst auðvitað líka um þetta eignarhald á vinnuaflinu sem hefur margsinnis verið gagnrýnt. Ég bendi á nýja leið og legg til að við ræðun hana í hv. félmn. en samkvæmt henni yrði hér miðlæg vinnumiðlun sem sæi um öll þessi leyfi. Hún yrði ekki eign einstakra atvinnurekenda.

Ég vil að lokum þakka afar góða umræðu, og ég trúi að hæstv. félmrh. muni klára að svara ákveðnum spurningum. Ég held að það verði að taka á því í lögunum og þessu nýja frv. hvernig við eigum að taka á fyrirtækjum sem framleigja vinnuafl.