Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:36:30 (1488)

2001-11-13 15:36:30# 127. lþ. 27.13 fundur 32. mál: #A loftferðir# (leiðarfluggjöld) frv., Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Flm. (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Auk mín eru flm. að frv. nokkrir aðrir hv. þm. Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, Einar Már Sigurðarson, Svanfríður Jónasdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Margrét Frímannsdóttir.

Frv. er um að 4. mgr. 71. gr. a laganna falli brott. Greinin fjallar um upptöku á svokölluðu leiðarflugsgjaldi, sem við ræddum hér aðeins áðan í því frv. sem hæstv. ráðherra mælti fyrir.

Í ákvæði til bráðabirgða segir, með leyfi forseta:

,,Öll gjöld sem innheimt hafa verið á grundvelli 4. mgr. 71. gr. a laga nr. 60/1998, frá því að lög nr. 74/2000 tóku gildi, skulu endurgreidd án ástæðulauss dráttar frá gildistöku laga þessara.``

Herra forseti. Hér er þetta frv. flutt í annað skiptið. Það var flutt á 126. löggjafarþingi og þá bárust samgn. jafnframt umsagnir um málið sem allar voru mjög jákvæðar. Frumvarpið varð hins vegar ekki útrætt og er því flutt nú, en þó með þeirri viðbót sem er ákvæði til bráðabirgða, sem ég nefndi áðan um að innheimt leiðarflugsgjöld, sem stundum hafa verið kölluð flugmiðaskattur ríkisstjórnarinnar, verði endurgreidd þeim flugrekendum sem þau hafa greitt.

Frá því frv. var fyrst flutt á síðasta löggjafarþingi og endurflutt nú hefur stuðningsmönnum frv. og þess að fella niður þennan ósanngjarna skatt fjölgað, þar sem hæstv. samgrh. hefur fallist á að ekki sé hægt að leggja þetta gjald á íslenska flugrekendur vegna þess að rektrarafkoma þeirra og rekstrarskilyrði séu það slæm núna. Því ber auðvitað að fagna.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan, herra forseti, að frv. sem ég flyt er öðruvísi, það gengur lengra, vegna þess að ég tel að endurgreiða ætti íslenskum flugrekendum þessi leiðarflugsgjöld.

Allir flugrekendur og allir sem sendu inn umsögn þegar málið var fyrst rætt í hæstv. samgn. mæltu gegn þessu, flugrekendur vöruðu við upptöku slíks gjalds og sögðu að þeir hefðu ekki nokkra möguleika á öðru en setja þetta þráðbeint út í verðlagið.

Herra forseti. Við ræddum áðan um rekstrarerfiðleika íslenskra flugfélaga sem sinna innanlandsflugi til hinna ýmsu dreifðu byggða sem m.a. leiddi til þess að við þurftum að taka það upp, eins og reyndar margar nágrannaþjóðir okkar hafa gert, að ríkisstyrkja flug til ákveðinna jaðarbyggða, til ákveðinna staða og ég hef áður lýst því yfir að ég hafi verið mjög ánægður með þá framkvæmd. Ég var líka mjög ánægður með þá framkvæmd að sjúkraflugið væri sett inn í það útboð til að auðvelda flugfélögum og skapa betri rekstrargrundvöll fyrir þau og þau gætu þá sinnt áætlunarflugi til tiltekinna staða, þess vegna í samkeppni við hitt flugfélagið og skapa þar með betri þjónustu og kannski stuðla að því að flugfargjöld rjúki ekki eins upp.

Herra forseti. Á 125. löggjafarþingi voru tekin upp gjöld, svokölluð leiðarflugsgjöld á flugleiðum innan lands. Þessi gjöld voru nýmæli hér á landi. Samkvæmt grg. með frv. til framangreindra laga er þessu gjaldi ætlað að standa straum af kostnaði vegna flugleiðsöguþjónustu við flugrekendur.

Á fundi samgn. kom fram hjá fulltrúum samgrn. og Flugmálastjórnar að þessi kostnaður væri tæpar 200 millj. kr. á árinu 2000 og gert var ráð fyrir að innheimta 30 millj. kr. fyrir árið 2000 (júní--desember) og tæpar 50 millj. kr. á yfirstandandi ári, árinu 2001. Var á þeim að heyra að stefnt væri að því að gjaldið stæði straum af öllum kostnaðinum í framtíðinni. Með öðrum orðum var sagt að notendur þjónustunnar ættu að greiða sanngjarnt verð fyrir útlagðan kostnað. Það varð sem betur fer ekki.

Frumvarpið var sent nokkrum aðilum til umsagnar sem allir mótmæltu þessu nýja gjaldi á innanlandsflugið. Þeir bentu á að ný gjaldheimta mundi fara beint út í verðlagið, með öðrum orðum yrði tekinn upp flugmiðaskattur eins og áður var sagt.

Herra forseti. Ég vil vitna aðeins í umsögn Flugleiða og dótturfélags Flugfélags Íslands, sem er ákaflega mikilvægt að rifja hér upp þegar rætt er um þann tíma sem liðinn er frá því þetta var tekið upp og sem blandast auðvitað inn í þá umræðu sem við höfum átt hér í dag um rekstrarerfiðleika flugfélaga og annað. En í þeirri umsögn stóð m.a., með leyfi forseta:

,,Öðru máli gegnir um nýmæli í síðari hluta 2. gr. þar sem ætlunin er að lögfesta álagningu nýrra leiðarflugsgjalda í innanlandsflugi, og innheimta á ,,fyrir hvert flug með blindflugsheimild eða á blindflugsleiðum``. Samkvæmt formúlu, sem gilda á um þessi nýju gjöld, þýðir að greiða þarf t.d. 10,65 kr. fyrir hvern floginn kílómetra Fokker 50 flugvélar í innanlandsflugi. Í athugasemdum með frv. kemur fram að þessu nýja gjaldi sé ætlað að skila Flugmálastjórn um 30 millj. kr. viðbótartekjum í ár.``

Síðan skýra þeir frá aðdraganda þessarar nýju gjaldtöku af innanlandsfluginu sem kom fram á fundi sem samgrn. hélt 19. ágúst 1999 með fulltrúum sex íslenskra flugrekenda. Á þeim fundi kom m.a. fram að hér væri ,,aðeins um fyrsta stig slíkrar innheimtu`` að ræða. Þarna kom það strax fram og var sagt af þeim flugrekendum sem áttu þennan fund, 19. ágúst 1999, að boðað hafi verið að þarna væri aðeins um fyrsta stig slíkrar innheimtu að ræða. --- Ég vildi aðeins ítreka þetta sem hér stendur, herra forseti, vegna þess að stundum hefur verið sagt að farið væri með rangt mál, að þetta hafi verið boðað. Þetta kom fram í umsögninni. --- Á þeim fundi mótmæltu flugrekendurnir harðlega slíkum viðbótarálögum og vitnuðu í því sambandi til þeirrar staðreyndar að íslenskt innanlandsflug hefur um árabil verið rekið með töluverðu tapi.

Í kjölfar þessa fundar sendu Samtök ferðaþjónustunnar bréf til samgrh., með afriti til forsrh., fjmrh., flugráðs, flugmálastjóra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar var m.a. vísað til tveggja þátta í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999:

,,Að treysta undirstöður byggðar í landinu í samræmi við nýsamþykkta þingsályktun um það efni. Kraftmikið og fjölbreytt atvinnu- og menningarlíf, aðgangur að góðri menntun og velferðarþjónustu ásamt lægri orkukostnaði og góðum samgöngum eru forsendur blómlegs atvinnulífs í landinu öllu.

,,Að auka veg ferðaþjónustunnar með öflugu kynningarátaki á helstu mörkuðum. Þannig verði nýtt þau sóknarfæri sem gefast í þeirri grein, ekki síst á sviði menningar- og heilsutengdrar ferðaþjónustu. Unnið verði að lengingu ferðamannatímans um land allt og betri nýtingu fjárfestingar í greininni.``

Rétt er, herra forseti, í þessu efni að minna á framlagða þáltill. sem nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar með hv. þm. Karl V. Matthíasson í broddi fylkingar hafa flutt um þetta efni, þ.e. um að lengja ferðamannatímann.

[15:45]

Herra forseti. Í þessari umfjöllun sagði líka:

Að mati íslenskra flugrekenda er augljóst að álagning nýrra og aukinna opinberra gjalda á íslenskt innanlandsflug, sem nú þegar er rekið með halla, er ekki til þess fallin að þessum markmiðum verði náð.

Í framangreindu bréfi Samtaka ferðaþjónustunnar, fyrir hönd flugrekendanna, var jafnframt minnt á þær grunnreglur um gjaldtöku af flugrekstri sem birtar hafa verið af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) sem Ísland hefur verið fullgildur aðili að frá 1947. Þar er um að ræða yfirlýsingar fastaráðsins, svo og þær alþjóðlegu leiðbeiningar sem er að finna í hlutaðeigandi handbók um þetta efni.

Í yfirlýsingu fastaráðsins eru aðildarríkin sérstaklega hvött til varkárni í stefnumörkun sinni við álagningu leiðarflugsgjalda og að þau taki tillit til þeirra áhrifa sem slík gjaldtaka hafi á notendur, sérstaklega flugrekendur sem gætu þurft að hækka gjaldskrár með hliðsjón af auknum kostnaði við ný og hærri gjöld.

Herra forseti. Umsagnirnar sem þarna komu voru strax mjög skýrar. Þetta hefur svo allt saman gengið eftir. Samt sem áður þverskallaðist hæstv. ríkisstjórn við þessum aðvörunarorðum og beitti sér fyrir því að þessi flugmiðaskattur var tekinn upp. Það er svo ekki nokkur vafi á því að flugmiðaskattur, þótt ekki sé mikill, samt 45--50 millj. á ársgrundvelli ef áætlanir hefðu gengið eftir --- þess ber að geta að sennilega hefði þessi skattheimta verið eitthvað minni vegna þess að ferðum hefur fækkað. Það er alveg ljóst að þetta var ekki til að létta reksturinn. Það voru því mikil mistök hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna að taka upp þessa skattheimtu, þennan nýja skatt. Því ber auðvitað að fagna að nú hafa menn ákveðið að taka þennan skatt til baka, viðurkennt þau mistök sem þarna áttu sér stað og leiðrétt þau með því að taka skattinn út.

Það er rétt, herra forseti, að rifja líka aðeins upp --- vegna þess að flugráð fjallaði um frv. það sem hér er flutt á 32. fundi sínum 23. mars 2000 og þar segir m.a., með leyfi forseta:

Í ljósi þeirrar erfiðu afkomu á innanlandsflugi sem raun ber vitni, þar sem sífellt fækkar flugrekendum og áfangastöðum, er nauðsynlegt að sýna varkárni við ný gjöld og skoða þarf vel hvaða áhrif þau hafa á notendur. Flugráð er því mótfallið því að setja leiðarflugsgjöld á við núverandi aðstæður og án samhengis við aðra gjaldtöku Flugmálastjórnar.

Í þessu bréfi flugráðs kom fram að umsögnin var samþykkt með fjórum atkvæðum en einn flugráðsmaður sat hjá. Og hverjir skyldu nú hafa setið í flugráði? Jú, það eru Hilmar Baldursson og Óli Jón Gunnarsson --- Hilmar Baldursson er að sjálfsögðu skipaður af hæstv. samgrh., og Óli J. Gunnarsson einnig, Gunnar Hilmarsson er framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna og skipaður, að mér skilst, sem slíkur. Í flugráði situr einnig sá ágæti maður Karvel Pálmason, fyrrv. alþm., og Árni Johnsen, fyrrv. alþm., sem reyndar var fjarstaddur þennan fund en varamaður hans, Guðmundur Hallvarðsson, sat fundinn.

Herra forseti. Það voru sannarlega mikil mistök að leggja þessi leiðarflugsgjöld á á sínum tíma. Og það varð til þess að auka vandræði þessara flugfélaga. Kostnaðaraukinn varð töluverður, þegar stórhækkun á eldsneytisverði er líka höfð í huga, að maður tali ekki um gengisfellingu íslensku krónunnar, gengisfellingu sem menn mæla jafnvel á fjórða tug prósenta, eftir því hvað menn fara langt til baka. Hún hefur ekki orðið til þess að auðvelda flugfélögum rekstur sinn.

Íslenskir flugrekendur þurfa að kaupa mikið af þjónustu sinni --- að maður tali ekki um varahluti, eru jafnvel með flugvélarnar á leigu --- og allt er þetta greitt í erlendri mynt. Tekjurnar eru hins vegar í íslenskum krónum, og því fór sem fór.

Ég óttast það mjög, herra forseti, að ekki sjái fyrir endann á fjárhagslegum erfiðleikum íslensku flugfélaganna um þessar mundir og ég óttast að uppgjör fyrir þetta ár verði mjög slæmt. Það gæti jafnvel leitt til þess að sum flugfélög muni draga sig út úr íslenskri flugþjónustu. Ég vona svo sannarlega að ekki komi til þess. En það setur auðvitað allt þetta mál í mikið uppnám. Farþegaflugið, flug með ferðamenn og síðast en ekki síst sjúkraflugið.

Ég vildi svo rétt í lokin segja það, herra forseti, að sá flugmiðaskattur sem þetta frv. fjallar um að fella niður, en frv. er endurflutt frá síðasta þingi, er skattheimta sem átti að skila einum 45 millj. kr. Það er sannarlega kannski rétt að þessar 45 millj., skipt niður á íslenska flugrekendur, ráða örugglega ekki úrslitum um rekstrarskilyrði þeirra. Ég hygg að gengisfelling íslensku krónunnar valdi því miklu frekar. Engu að síður --- skilaboðin sem hæstv. ríkisstjórn sendi flugrekstraraðilum með þessum flugmiðaskatti voru skýr. Menn geta líka sagt, og hafa sagt, að þessi flugmiðaskattur sé sáralítill á hvern farmiða. Menn voru búnir að reikna það einhvern tímann út að þetta voru fimm eða tíu krónur á farþega o.s.frv. Það getur vel verið að það sé rétt. En ég bendi þá á það, herra forseti, að þessi flugmiðaskattur var líka greiddur af flugferð sem enginn farþegi sat í. Og þótt það hefði bara verið einn farþegi var greitt jafnhátt gjald fyrir flugið.

Ég ætla ekki að segja að þetta hafi orðið til þess að Flugfélag Íslands hætti að fljúga til Vestmannaeyja eða Hafnar í Hornafirði, ég er ekki viss um það. En allir þessir samverkandi þættir: gengisfelling krónunnar, hátt olíuverð, mjög mikil launahækkun íslenskra flugmanna --- við megum ekki gleyma --- og annað í þessum dúr hefur verið mjög erfitt fyrir íslenska flugrekendur. Allir þessir þættir sem komu á svipuðum tíma inn hafa vafalaust gert það að verkum að margir hugsuðu sem svo að þetta væri bara hreinlega ekki hægt og að menn mundu draga sig út úr þessum flugrekstri.

Sú hefur orðið raunin með Flugfélag Íslands sem hætti að fljúga til Vestmannaeyja. Við tekur sem betur fer Íslandsflug, sem flýgur ágætum vélum, mjög öruggum og góðum Dornier-vélum, en þær eru ekki nema 19 sæta. Og við vitum vel --- það hefur ekki minnkað nú á þessum síðustu og verstu tímum í flugöryggissögu heimsins eða frá hryðjuverkunum 11. september --- að það eru mjög margir, sérstaklega útlendingar sem eru ekki vanir að ferðast í svona litlum flugvélum, sem hreinlega bara hætta við þegar þeir sjá að vélarnar eru ekki stærri.

Þannig held ég, herra forseti, að það sé mjög erfitt og mjög bagalegt fyrir samfélagið Vestmannaeyjar að Flugfélag Íslands skuli hætta að fljúga þangað Fokker Friendship-vélum, 50 manna vélum. Og e.t.v. er nákvæmlega það sama að segja um Hornafjörð.

Komið hefur fram frá hæstv. samgrh. að hann hyggist efna til útboðs vegna flugsins til Hornafjarðar, og því er ég alveg sammála. Það flug verður ekki rekið nema með ríkisstyrk.

Herra forseti. Rétt í lokin. Ég er ekkert hræddur við það að taka upp orðið ,,ríkisstyrkur`` í sambandi við farþegaflug eða sjúkraflug. Þetta er vel þekkt hjá nágrannalöndum okkar. Það þarf að styrkja flug til hinna minni staða, til dreifðra byggða, á landsbyggðinni. Það höfum við gert núna í rúmlega eitt ár og því ber auðvitað að fagna. Þetta er samfélagsleg þjónusta og það er samfélagið sem verður að koma til og veita styrki í þetta flug þannig að hægt sé að hafa það, nákvæmlega eins og ferjusiglingar eru styrktar og nákvæmlega eins og strætisvagnaakstur á Íslandi er í raun og veru niðurgreiddur. Og þá á ég auðvitað við það að 70% af þungaskatti í strætisvagnarekstri eru gefin eftir. Ég er ekki að mæla gegn því, ég er hlynntur því. Ég er sammála því að þetta sé gert. Þetta er einfaldlega hluti af samgöngukerfi Íslendinga og við þurfum að styrkja það á þennan hátt.

Herra forseti. Að lokinni 1. umr. um þetta frv. til laga sem ég hef hér flutt legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.