Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:55:37 (1489)

2001-11-13 15:55:37# 127. lþ. 27.13 fundur 32. mál: #A loftferðir# (leiðarfluggjöld) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm., 1. flm. þessa frv., liggur fyrir að í raun er búið að taka ákvörðun um að fella niður hið svokallaða flugleiðsögugjald þannig að flugfélögin þurfi ekki að greiða það. Kannski þarf þá ekki að halda margar ræður um það vegna þess að stjórnvöld eru búin að taka þessa ákvörðun. Og um það fjölluðum við þegar við vorum að fara yfir loftferðalagafrv. fyrr í dag.

Hv. þm. Kristján Möller komst að orði eitthvað á þá leið að auðvitað hefði þetta gjald ekki ráðið úrslitum út af fyrir sig um afkomu flugfélaganna hvað varðar innanlandsflugið. Það er alveg rétt hjá honum. Hins vegar var það afstaða ríkisstjórnarinnar að vegna kostnaðarauka hjá flugfélögunum, m.a. vegna olíuverðshækkana, var talin ástæða til þess að koma til móts við flugfélögin með þeim hætti sem við gerum í frv. ríkisstjórnarinnar og fella niður þetta gjald.

Hvað varðar hins vegar almenningssamgöngur innan lands vil ég, að gefnu tilefni, fara aðeins yfir það að við Íslendingar höfum sloppið tiltölulega vel frá því að styrkja almenningssamgöngur. Við höfum haft áætlunarbíla sem hafa verið reknir á grundvelli sérleyfa gegnum tíðina og þar eru veittir styrkir, ríflega hundrað milljónir. Á síðasta ári var tvöfaldaður sá styrkur sem gengur til sérleyfisbíla. Auk þess, eins og fram kom, er strætisvagnaþjónustan styrkt nokkuð. Síðan hafa flugfélögin fengið minni háttar stuðning, raunar mjög lítinn, þangað til nú að við höfum boðið út tilteknar flugleiðir. Þetta eru ríkisstyrkir í almenningssamgöngum fyrir svo utan ferjurnar, Herjólf, Baldur, Anný sem gengur til Mjóafjarðar og Hríseyjar- og Grímseyjarferjurnar.

Þetta eru auðvitað nokkrar fjárhæðir þegar á heildina er litið fyrir okkar litla hagkerfi og fáu íbúa sem eru í landinu. Engu að síður eru þetta veittir styrkir.

Ég tel að við þurfum auðvitað að gæta mjög hófs í því að veita ríkisstyrki, í hvaða nafni sem þeir eru, en við höfum hins vegar tekið ákvörðun um að veita þessa styrki til almenningssamgangna sérleyfisbíla og við gerum ráð fyrir því að bjóða þær leiðir út innan tíðar. Og við höfum ákveðið að bjóða út flugsamgöngurnar á jaðarbyggðirnar eins og hefur komið fram, í tilfelli Hornafjarðar vegna þess að það er tiltölulega löng leið að fara akandi og það er talið að áætlunarflug til Hafnar í Hornafirði nýtist vel fyrir sjúkraflutningana. Á Hornafirði er ekkert sjúkrahús og þess vegna er mjög mikilvægt að sjúkraflutningar séu öruggir. Þess vegna teljum við eðlilegt að þetta fari saman.

Þannig er þetta svið ríkisstyrkja hjá okkur og ég tel að jafnan þurfi að skoða mjög vandlega og fara varlega í að halda uppi ríkisstyrkjum. Engu að síður er almenningssamgöngukerfið í öllum nágrannalöndum okkar styrkt með einhverjum hætti. Við höfum ekki járnbrautarlestir eins og nágrannalönd okkar sem kosta þarlenda skattgreiðendur mjög miklar fjárhæðir. Hins vegar er flugið mjög mikilvægt fyrir okkur í stóru og strjálbýlu landi. Sem betur fer er flugið það mikið notað eins og t.d. á leiðunum Reykjavík/Ísafjörður, Reykjavík/Akureyri, Reykjavík/Egilsstaðir og Reykjavík/Vestmannaeyjar að flugfélögin treysta sér til þess að fljúga þessar leiðir án sérstakra styrkja. Ég vona að svo verði áfram í framtíðinni. En aðrar flugleiðir þarf að tryggja og treysta vegna byggðarinnar og ekki síður vegna ferðaþjónustunnar og þess vegna höfum við valið þá leið að veita styrki en gera það með útboðum.

Þetta vildi ég að fram kæmi, herra forseti, vegna þessarar umræðu en að öðru leyti vil ég vísa til þess að þetta frv. er í raun óþarft. Það liggur fyrir að við munum ekki innheimta flugleiðsögugjaldið en það er fyrst og fremst liður í því að veita flugfélögunum óbeinan styrk vegna þess að kostnaðarverðshækkanir hjá flugfélögunum hafa orðið miklu meiri en okkur óraði fyrir þegar flugleiðsögugjaldið var á sínum tíma lagt á.