Hönnun og merkingar hjólreiðabrauta

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 17:08:48 (1504)

2001-11-13 17:08:48# 127. lþ. 27.15 fundur 248. mál: #A hönnun og merkingar hjólreiðabrauta# þál., Flm. ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[17:08]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir hve vel þeir hafa tekið þessari tillögu, og margt athyglisvert hefur komið fram í umræðunni. Eins og kom fram í framsöguræðu minni er markmið þessarar tillögu að vekja athygli á hjólreiðamönnum í umferðinni og um leið að auka öryggi þeirra og fækka slysum.

Hvað kostnað varðar verðum við líka að gæta að því að það er mikill kostnaður fólginn í því þegar slys verða og annað slíkt. Þannig er kostnaður alltaf afstætt hugtak. En hér hafa verið reifaðar ýmsar góðar hugmyndir í þessu sambandi og það er greinilega aukinn áhugi manna á hjólreiðum. Að sjálfsögðu kostar þetta talsverða peninga. Hér er um langtímamarkmið og langtímamál að ræða. Eins og kom einnig fram í ræðu minni áðan er t.d. leiðin frá Hafnarfirði um Garðabæ, Kópavog og Reykjavík í Mosfellssveit býsna fjölfarin og það er beinlínis hættulegt fyrir hjólreiðamenn að vera t.d. á þessum slóðum.

Hv. formaður samgn. rifjaði upp áðan að ansi skemmtilegur danskur þingmaður sem heitir Jakob Haugaard --- er reyndar hættur í þinginu --- var mikill áhugamaður um reiðhjól en reyndar fleira en reiðhjól. Þegar hann var kosinn á þing --- ég hygg að það hafi verið 1991 --- var hann með þrjú kosningaloforð. Það var alveg hárrétt hjá hv. formanni samgn. að eitt þeirra var að Danir hefðu alltaf vindinn í bakið þegar þeir hjóluðu. Annað var að það yrði endalaust gott veður í Danmörku og þriðja kosningaloforðið sem er líka dálítið merkilegt var að hann vildi að það yrði svolítið fjörugra ástarlíf á kennarastofunum. Jakob Haugaard hafði sem sagt þessi þrjú kosningaloforð. Hann var kosinn og sat eitt kjörtímabil á þingi í Danmörku en bauð sig ekki fram aftur. (Gripið fram í.) Hann efndi öll þessi kosningaloforð nema kannski þetta síðasta, ég þekki það ekki.

Herra forseti. Ég er ákaflega ánægður með þær undirtektir sem þessi tillaga hefur fengið. Ég er alveg viss um að samgn. mun fjalla um þetta, fylla inn í þær eyður sem upp á vantar og að tillagan nái þeim tilgangi að vekja athygli á hjólreiðamönnum í umferðinni og einnig að auka öryggi þeirra og fækka slysum.