Áfengislög

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 13:41:16 (1615)

2001-11-15 13:41:16# 127. lþ. 30.4 fundur 176. mál: #A áfengislög# (framleiðsla innlendra léttvína) frv., GPál
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Gunnar Pálsson:

Virðulegi forseti. Það er mér sérstök ánægja að taka í fyrsta skipti til máls á hinu háa Alþingi til að lýsa eindregnum stuðningi mínum við þetta frv. um breytingu á áfengislögum.

Það er hárrétt sem fram kom í máli hv. flutningsmanns að töluvert margir hafa það fyrir tómstundagaman að framleiða sitt eigið vín til eigin nota, bæði hér á landi úr berjum, rabarbara og ýmsum öðrum jarðargróða, og þó er það margfalt algengara erlendis þar sem auðveldara er að rækta ávexti. Það er náttúrlega mun þægilegra að framleiða vín, t.d. úr eplum og perum og slíkum ávöxtum enda er það mjög algengt þar sem eg þekki til, t.d. í norðvestanverðu Frakklandi þar sem menn framleiða mjög gjarnan vín úr eplum sem þeir rækta í garðinum hjá sér. Það er auðvitað alveg ófært að hér skuli það vera lögbrot að menn framleiði slíkt vín til eigin þarfa.

Þess utan get ég tekið undir það sem Svíarnir löngu sögðu í Guðsgjafaþulu, að allt undir tólf prósentum væri litið á sem matvæli í Svíþjóð. Mér finnst raunverulega að léttvín undir 12% sé fremur matvæli en áfengi. Þetta er í rauninni hluti af matnum, það er hluti af því að gera góða veislu og borða góðan mat að hafa gott vín. Enn þá meiri ánægja verður af þeirri veislu ef gestgjafinn hefur framleitt vínið sjálfur. Það bætir talsverðu við.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri en ég hugsa reyndar oft til þess að hér á Íslandi er vaxandi byggræktun. Ég er alveg viss um að einhvern tímann í framtíðinni verður framleitt hér heimsins besta viskí. En það er svo önnur saga og heyrir ekki undir þessa tillögu.