Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:30:52 (1625)

2001-11-15 14:30:52# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Síðasta vetur var hart tekist á um hlutafélagavæðingu og sölu á Orkubúi Vestfjarða. Sú umræða var gjarnan tengd fjárhagsvanda sveitarfélaganna á Vestfjörðum og sérstaklega skuldum nokkurra þeirra við félagslega íbúðakerfið.

Hinn 7. febrúar sl. var svo, á eigendafundi Orkubús Vestfjarða, undirritað samkomulag sem fól í sér ákvörðun um slit á sameignarfélaginu Orkubúi Vestfjarða og stofnun hlutafélags um reksturinn. En samtímis þeirri undirritun afhentu ráðuneytisstjórarnir í fjmrn., iðnrn. og félmrn. eigendafundinum bréf þar sem kynnt voru þau skilyrði sem ráðuneytin settu fyrir hlutafélagavæðingunni, verð- og kauptilboð sem ríkið væri reiðubúið að gera í eignarhlut sveitarfélaganna. Enn fremur kom fram að sveitarfélögunum væri gert að verja andvirðinu til greiðslu á lánum við félagslega íbúðakerfið.

Bréf ráðuneytisstjóranna kom sveitarfélögunum á óvart. Þau vissu að vísu fyrir fram að hluti andvirðisins, ef til sölu til ríkisins kæmi, mundi fara til greiðslu á vanskilum við félagslega íbúðakerfið hjá þeim sveitarfélögum sem svo stóð á hjá. En þau litu samt svo á að það uppgjör væri óháð sjálfri hlutafélagavæðingunni og sölu fyrirtækisins og að greiðsla skulda færi eftir frjálsum samningum.

Þessari bókun ráðuneytisstjóranna, fyrir hönd sinna ráðuneyta á fundinum 7. febrúar, var harðlega mótmælt af hálfu sveitarfélaganna. Eins og okkur öllum er kunnugt voru lögin um hlutafélagavæðingu orkubúsins síðan samþykkt á Alþingi gegn atkvæðum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Frjálslynda flokksins. Þetta hafði áður verið hið mesta hitamál á Vestfjörðum og samkvæmt skoðanakönnun þar voru íbúarnir afar andvígir hlutafélagavæðingunni og sölunni.

Maður skyldi ætla að ríkisvaldið hefði tekið ákvörðun um að halda málinu áfram af fullri kurteisi og á jafnréttisgrundvelli. En, herra forseti, með bréfi dags. 23. ágúst sl., undirrituðu af ráðuneytisstjórum fyrrgreindra ráðuneyta, er sett fram einhliða kauptilboð ríkisins í orkubúið og jafnframt kveðið á um hvernig kaupverðinu skuli ráðstafað. Nú er ekki aðeins krafist greiðslu á vanskilum við Íbúðalánasjóð heldur einnig niðurfærslu á lánum sem eru í fullum skilum.

Bréfi ráðuneytisstjóranna fyrir hönd sinna ráðuneyta lýkur, herra forseti, með nokkuð hrokafullum hætti. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Viðkomandi sveitarfélag skal eigi síðar en kl. 16.00 þriðjudaginn 25. september 2001 tilkynna fjármálaráðuneyti með skriflegum hætti ef gengið er að tilboði þessu.``

Er það nú kurteisi, herra forseti, í samskiptum aðilanna?

Herra forseti. Mér finnst þessar bréfaskriftir og þessi framkoma lýsa miklum hroka. Ríkið hefur einhliða viljað setja leikreglurnar og stjórna þannig framhaldi málsins. Ég hygg að það muni reynast auðvelt að gera upp við þau sveitarfélög sem skulda ríkinu ekki neitt. Krafa sveitarfélaganna var sú að sölunni og skuldum við félagslega íbúðakerfið yrði haldið aðskildum, en annað hefur svo komið á daginn.

Herra forseti. Mér er kunnugt um að allmörg sveitarfélög sem hafa átt í mestum greiðsluerfiðleikum hafa ekki náð samningum. Því leyfi ég mér að bera eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. fjmrh.:

Hvaða sveitarfélög á Vestfjörðum hafa nú þegar gengið að tilboði ríkisins í eignarhlut þeirra í Orkubúi Vestfjarða og hvernig standa samningar við þau sem ekki hafa selt hlut sinn?

Hvers vegna fengu sveitarfélögin á Vestfjörðum ekki frjálsan rétt til að ráðstafa sjálf söluandvirði sínu í Orkubúi Vestfjarða heldur var gerð krafa um að greiðsla á lánum sveitarfélaganna við opinbera sjóði hefði forgang og lánardrottnum þannig mismunað?

Herra forseti. Mörg önnur sveitarfélög á landsbyggðinni berjast nú í bökkum fjárhagslega vegna fólksfækkunar, tekjumissis og skulda við félagslega íbúðakerfið. Hvernig verður farið að þeim sveitarfélögum sem engar eignir eiga til að leggja upp í skuldir?