2001-11-19 18:46:37# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að okkur greinir á í grundvallaratriðum hér, okkur hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, vegna þess að ég tel ákvæðið vera umhverfisvænt en ég heyri að hann telur að svo sé ekki, og ég hef fært rök fyrir máli mínu.

Varðandi kvótamarkaðinn sem margir hafa gert að umtalsefni, þá vil ég koma því á framfæri að það er alveg ljóst að íslenska ákvæðið útilokar okkur frá því að selja þann kvóta, þetta er ekki eitthvert rými sem við getum selt. Það er engin heimild til þess fyrir okkur. Ekki er heldur búið að ákveða að setja almennt upp kvótamarkað, það er alveg sjálfstæð ákvörðun, ekki er búið að ákveða það. Það getur verið að það verði gert, það getur líka verið að það verði ekki gert. Það er því ekki búið að ákveða enn þá með hvaða hætti við munum taka á þeim málum. Þau mál eru til skoðunar í sérstakri nefnd og tillögur um það koma til okkar síðar.

Ef tekin verða upp innanlandsviðskipti, þá mun það kvótakerfi ná til þess hluta sem fellur undir losunarheimildir Íslands, þ.e. almenna ákvæðið, þessi plús 10%. Þannig mun kvótakerfið virka í öllum löndum, það tekur til almennra ákvæða. Íslenska ákvæðið er hins vegar sérákvæði og fellur ekki undir almennu losunarheimildirnar þannig að það getur ekki fallið undir það kvótakerfi. Ég vona að þingmenn átti sig á þessu.

Einnig er ljóst að Evrópusambandið er núna með í pípunum eða er að skoða tilskipanir varðandi kvótamarkaðinn og það er hugsanlegt að Ísland, ef við viljum taka upp kvótakerfi, yrði þá hluti af því, og ýmislegt bendir til þess að þeir muni hafa álið utan við. Ef svo verður og við hefðum ekki fengið íslenska ákvæðið þá hefði það þýtt að Ísland hefði verið eina ríkið og þótt víðar væri leitað sem hefði þurft að kaupa allar heimildirnar fyrir álframleiðslu og það væri auðvitað algjörlega fráleit staða. Þess vegna er íslenska ákvæðið svona mikilvægt.