2001-11-19 19:06:13# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:06]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist þess þegar við ræddum þá þáltill. sem Samfylkingin setti fram sem sitt fyrsta mál árið 1999, ef ég man ártalið rétt, sem einmitt var um undirritun Kyoto-bókunarinnar. Tillagan fjallaði um að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að undirrita þegar í stað fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina. Þegar við ræddum þetta mál þá kom í ljós að þessir ágætu þingmenn áttu engin svör við þeim spurningum sem vöknuðu --- þá var mikið rætt um magnesíumverksmiðju á Suðurnesjum --- og voru í raun ekki tilbúnir til að afsala sér þeim möguleikum sem voru fyrir hendi í þeim efnum.

Hv. þm. spurði hvernig ætti að úthluta kvótum og því um líku. Ég veit að hæstv. umhvrh. mun fara yfir það í síðustu ræðu sinni þannig að þau mál eru í umræðunni og í útfærslu. Það er stutt síðan þessi samþykkt var gerð og hæstv. ráðherra mun marka þá stefnu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og koma inn á það í ræðu sinni á eftir.